Flugfélagið Emirates ætlar að ráðast í uppsagnir vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á flugrekstur félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu en þar er ekki tiltekið hversu mörgum verður sagt upp.
„Við höfum skoðað alla möguleika í stöðunni til að viðhalda rekstri okkar en höfum komist að þeirri niðurstöðu að því miður þurfum við að kveðja nokkra úr okkar dásamlega starfsliði,“ segir í tilkynningunni.
Emirates, sem er með höfuðstöðvar í Dúbaí og er langstærsta flugfélag í Mið-Austurlöndum, er með um hundrað þúsund manns í vinnu og gerir út 270 breiðþotur.
Farþegaflug til 159 áfangastaða félagsins hefur verið af skornum skammti frá því mars og hafa starfsmenn tekið á sig 25 til 50 prósent launalækkun á tímabilinu. Áætlunarflug til helstu flugvalla á Vesturlöndum hófst að nýju í síðustu viku.
Forsvarsmenn Emirates segjast ekki taka ástandinu af léttúð og hyggst félagið gera hvað sem það getur til að vernda störf innan fyrirtækisins.