Forstjóri Símans undrast að Sýn skuli bjóða upp á enska boltann með tapi og segir fyrirtækið beita skaðlegri undirverðlagningu sem markaðsráðandi aðili.
Vodafone, sem er í eigu Sýnar, auglýsti í morgun að það ætli að bjóða aðgang að Símanum Sport, sem á sýningarréttinn á ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, á eitt þúsund krónur á mánuði út yfirstandandi keppnistímabil.
Spurður út í viðbrögð við þessu útspili segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, að Síminn ákveði ekki á hvaða verði endursöluaðilar selja vöru í smásölu. „Við seljum vöruna í heildsölu og það liggur alveg fyrir að það er mikið hærra en þúsund krónur. En ef aðilar úti í bæ vilja selja vöruna með tapi þá er það þeirra mál, eins langt og það nær,“ segir hann.
Orri bendir á að Sýn hafi verið útnefnt sem markaðsráðandi aðili á markaði bæði fyrir áskriftarsjónvarp og sjónvarpsdreifingu. Slíkir aðilar megi ekki beita skaðlegri undirverðlagningu. „En þetta er auðvitað þeirra ákvörðun og þeir verða þá að taka öllum afleiðingum þess.“
Í tilkynningu sinni í morgun óskar Vodafone eftir því að Síminn breyti heildsöluverðlagningu sinni þannig að hægt verði að bjóða neytendum enska boltann á 1.000 krónur einnig á næsta tímabili án þess að umtalsvert tap hljótist af. Orri áréttar að Síminn selji Símann Sport ekki á 1.000 krónur í smásölu. Fyrirtækið selji sjónvarpsþjónustuna Premium, sem innihaldi m.a. Símann Sport, á sex þúsund krónur á mánuði 12 mánuði ársins. Síminn Sport kosti aftur á móti stakur 4.500 krónur í smásölu í 9 til 10 mánuði ársins.
„Það sem okkur finnst vont er að það er verið að gefa neytendum tímabundið falskar væntingar og rugla alla í ríminu með því að fara í einhverja lagalega og markaðslega samkvæmisleiki. Hið venjulega fólk er algjörlega hætt að skilja hvað er í gangi og jafnvel við sem vinnum á þessum markaði eigum stundum erfitt með að skilja það,“ greinir hann frá og segir aðalatriðið að eftir að Síminn keypti sýningarréttinn að enska boltanum hafi verðið snarlækkað og dreifingin aukist frá því sem var þegar Sýn og forverar hennar voru með réttinn.
Samkeppniseftirlitið dæmdi Símann til að greiða 500 milljónir króna í sekt vegna brota á sátt sem eftirlitið og Síminn gerðu í tengslum við enska boltann. Að sögn Orra er áfrýjun málsins í gangi. „Við greiðum þessa sekt en við höfum miklar væntingar til að fá hana til baka,“ segir hann og bætir við að „upphlaup“ Sýnar sé í framhaldi af þessum dómi.