Þrjátíu og fimm starfsmönnum Kristjánsbakarís á Akureyri hefur verið sagt upp störfum. Kristjánsbakarí var stofnað árið 1912 og er eitt elsta iðnfyrirtæki landsins.
Vilhjálmur Þorláksson, framkvæmdastjóri Gæðabaksturs, sem á og rekur Kristjánsbakarí, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að uppsagnirnar séu liður í endurskipulagningu fyrirtækisins. Verið sé að skerpa á hlutum og hagræða, m.a. vegna tekjufalls í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Hann hafi gert reksturinn mjög þungan.
Vilhjálmur segir að reynt verði að endurráða sem flesta starfsmenn að lokinni endurskipulagningunni. „Stór liður í þessum aðgerðum er að tryggja starfsemi Kristjánsbakarís á Akureyri.“
Fyrirtækið rekur tvö bakarí á Akureyri. Vilhjálmur segir að auk uppsagnanna fari framleiðsla á vörum undir merkjum Kristjánsbakarís sem seldar eru á höfuðborgarsvæðinu, framvegis fram í Reykjavík.
Nánari umfjöllun er að finna í ViðskiptaMogganum í dag.