Viðskiptabankarnir lánuðu íslenskum heimilum 22,3 milljarða í maímánuði til húsnæðiskaupa eða endurfjármögnunar húsnæðisskulda. Bankarnir hafa ekki áður lánað jafn háar fjárhæðir í þessu formi í einum mánuði.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands. Til samanburðar lánuðu bankarnir í sama skyni 12,8 milljarða í aprílmánuði og nemur aukningin milli mánaða því 74%.
Í tölum Seðlabankans, sem ná aftur til upphafs árs 2013, má sjá að húsnæðislán bankanna, að teknu tilliti til umfram- og uppgreiðslna hafa ekki áður farið yfir 20 milljarða í einum mánuði. Í júlí 2015 stappaði nærri en þá lánuðu bankarnir 19,2 milljarða króna.
Langmest virðist aðsóknin í óverðtryggð húsnæðislán með breytilegum vöxtum og stóðu nýjar lánveitingar á þeim grunni í 27,4 milljörðum umfram upp- og umframgreiðslur í maímánuði. Á sama tíma greiddu heimilin upp óverðtryggð lán með föstum vöxtum fyrir 3,3 milljarða. Enn er nokkuð tekið af verðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum og námu þau útlán 427 milljónum í mánuðinum. Verðtryggð fastvaxtalán voru hins vegar greidd upp, umfram nýjar lántökur, fyrir 2,2 milljarða króna, að því er fram kemur í umfjöllun um lánamál þessi í ViðskiptaMogganum í dag.