„Alveg ótrúlega lélegt“

Haraldur Teitsson, formaður hópferðaleyfishafa og framkvæmdastjóri Teits Jónassonar ehf, er …
Haraldur Teitsson, formaður hópferðaleyfishafa og framkvæmdastjóri Teits Jónassonar ehf, er undrandi á vinnubrögðum Strætó bs. og Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Aðsend

„Það er alveg ótrúlega lélegt hvernig staðið er að þessu,“ segir Haraldur Teitsson, formaður Félags hópferðaleyfishafa og framkvæmdastjóri Teits Jónassonar ehf., um útboðsferli Strætó bs. á ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

Haraldur segir útlit fyrir að Strætó bs. hafi vísvitandi sett skilyrði sem einungis  Hópbílar gátu uppfyllt þegar ferðaþjónusta fatlaðra var boðin út og tilboð opnuð 7. maí. Hópbílar hf. urðu fyrir valinu þar sem þeir áttu lægsta gilda tilboðið samkvæmt innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar en öll önnur tilboð voru talin ógild.

Tilboð Hópbíla var 4,2 milljarðar til 5 ára, sem greiðast úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en lægsta tilboðið, frá Ferðó ehf., hljóðaði upp á 2,9 milljarða. 

Þegar þjónustan var boðin út, í mars 2020, var tilboðsgjöfum gert skylt að hafa 25 sérútbúnar hópbifreiðar á reiðum höndum, sem uppfylltu gæðastaðla, en eldri bílar með lægri gæðastöðlum voru heimilir fyrsta árið.

Í tilboðsferlinu óskuðu Samtök ferðaþjónustunnar eftir fresti fyrir umboðsaðila, einkum til að panta bifreiðar, í ljósi kórónuveirufaraldursins og þess að framleiðslumarkaðir lægju niðri. 

Ekki féllst innkaupaskrifstofa Reykjavíkurborgar á þær tillögur og var umboðsaðili tilkynntur á laugardaginn 20. júní en akstur hefst 1. júlí. 

Kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar

Snæland Grímsson, sem býr yfir 70 ára reynslu í íslenskri ferðaþjónustu, féll á skilyrðum útboðsskilmálanna. Fyrirtækið hafði ekki 25 hópbifreiðar til verksins á reiðum höndum þegar sótt var um en Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir eðlilegt að nýir bílar séu keyptir fyrir verkefni sem þessi. 

„Þetta kom mér mjög á óvart. Ég hef ekki tekið þátt í þessu áður en það er eitthvað á milli Strætó og Hópbíla,“ segir Hallgrímur. Hann hyggst kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar útboðsmála. 

Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri Snælands Grímssonar.
Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri Snælands Grímssonar.

„Það er eðlilegt að þú kaupir bíla fyrir svona útboð. En það er hins vegar óeðlilegt að bjóða þetta út með kröfu um það að þú sért með þá tilbúna án þess að vita hvort þú fáir tilboðið,“ segir Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri Snæland Grímsson. Fyrirtæki hafi vanalega fengið nokkurra mánaða svigrúm til að panta bifreiðar þegar þeim hefur verið tilkynnt að þau hafi orðið fyrir valinu.

„Ég fer ekki að panta 25 bíla upp á von og óvon, það gerir það enginn. Mitt fyrirtæki er þekkt fyrir það að standa sig vel í því sem það tekur sér fyrir hendur. Við uppfylltum ekki fagleg og tæknileg skilyrði og útboðið dæmt ógilt á þeim forsendum, en það eina sem er hægt að lesa út úr því er að við værum ekki með 25 bíla klára á planinu,“ sagði Hallgrímur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK