Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Glitni HoldCo ehf. af 1,1 milljarðs króna kröfu þrotabús Mainsee Holding ehf. Þrotabú Mainsee Holding krafðist þess að fá rift greiðslu skuldar upp á 6,7 milljónir evra (um 1,1 milljarð króna) sem fyrirtækið hafði greitt Glitni HoldCo.
Mainsee Holding var lýst gjaldþrota 7. febrúar 2018 en félagið var í meirihlutaeigu Róberts Wessman. Það hafði verið stofnað sumarið 2007 og var þá í jafnri eigu Novator Pharma, félags Björgólfs Thors Björgólfssonar, og Salt Pharma, félags Róberts Wessman sem þá voru samstarfsmenn, en þeir hafa á síðustu árum átt í allnokkrum dómsmálum eftir að slettist upp á vinskapinn.
Athyglisvert er að Glitnir HoldCo er stærsti kröfuhafi þrotabús Mainsee Holding, en af 13,9 milljarða kröfum sem lýst var í bú félagsins hefur Glitnir HoldCo lýst kröfum upp á 9,1 milljarða króna. Annar kröfuhafi félagsins er Björgólfur Thor, sem hafði lýst kröfum upp á 4,7 milljarða króna.
Í stefnunni kom fram að Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri Mainsee Holding, hefði lýst því yfir að ekki væri nægt fé í þrotabúinu til að hægt væri að höfða riftunarmálið á hendur Glitni. Málið var hins vegar höfðað eftir að Björgólfur Thor ábyrgðist að greiða allan kostnað skiptastjóra vegna riftunarmálsins.
Svo fór að héraðsdómur sýknaði Glitni HoldCo og gerði þrotabúi Mainsee Holding að greiða stefnda 4,5 milljónir króna í málskostnað.