3,6 milljörðum úthlutað til hagkvæmra leiguíbúða

Nú þegar hafa um 600 fjölskyldur flutt inn í íbúðir …
Nú þegar hafa um 600 fjölskyldur flutt inn í íbúðir sem byggðar hafa verið með stuðningi ríkis og sveitarfélaga á síðustu árum að því er HMS greinir frá. Nú hefur fé verið úthlutað til byggingar 600 íbúða til viðbótar.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur úthlutað ríflega 3,6 milljörðum króna í stofnframlög til byggingar og kaupa á 600 hagkvæmum leiguíbúðum víðsvegar um landið, svokallaðra almennra íbúða. Leiguíbúðirnar verða í 15 sveitarfélögum en meginþorri þeirra verða á höfuðborgarsvæðinu.

Fjármunirnir eru hugsaðir til að styðja við framboð ódýrra leiguíbúða fyrir almenning og verða nýttir til byggingar á 438 íbúðum og kaupa á 162 íbúðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. 

Ætlunin að slá á mikinn húsnæðisvanda

Fram kemur, að stofnframlögin renni til byggingaraðila í almenna íbúðakerfinu og ætlunin sé að slá á þann mikla húsnæðisvanda sem lægri og millitekjuhópar hafi mátt stríða við undanfarin ár. Fólk sem leigi íbúð í kerfinu þurfi ekki að verja jafn stórum hluta af ráðstöfunartekjum heimilisins til húsnæðis og það myndi í mörgum tilfellum gera á frjálsa leigumarkaðnum og búi við meira öryggi því ekki sé hægt að segja upp leigunni nema að ýmsum skilyrðum uppfylltum.

Flestar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu

Þá segir, að alls hafi 15 sveitarfélög fengið úthlutað stofnframlögum en flestar af íbúðunum 600 eru á höfuðborgarsvæðinu, eða 472. Þá eru átta íbúðir á Austurlandi, 14 á Norðurlandi eystra, 13 á Norðurlandi vestra 10 á Suðurlandi, 12 á Suðurnesjum, 4 á Vestfjörðum og 67 á Vesturlandi. 

„Sem stuðning við lífskjarasamningana ákvað ríkisstjórnin að auka framlögin til almenna íbúðakerfisins um 2,1 milljarð árlega á árunum 2020 til 2022 til þess að flýta fyrir uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði og stuðla að auknu húsnæðisöryggi leigjenda,“ segir í tilkynningunni.  

Tæplega 20 milljarða króna fjárfesting

„Ljóst er að stofnvirði þeirra verkefna sem samþykkt voru í þessari úthlutun fela í sér fjárfestingu á húsnæðismarkaði upp á tæplega 20 milljarða króna. Þar af fara tæpir 14 milljarðar í uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði og 6 milljarðar í kaup. 

Alls bárust HMS 35 umsóknir um samtals 5,6 milljarða króna og af þeim voru 31 umsóknir samþykktar, ýmist að fullu eða að hluta til. Sveitarfélög nutu forgangs við úthlutunina og hlutu alls um 1,2 milljarða króna,“ segir jafnframt. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK