Bandaríska flugfélagið American Airlines lætur sóttvarnarreglur lítið á sig fá, en litlar sem engar ráðstafanir eru gerðar í flugum félagsins. Skiptir mikil fjölgun smita í Bandaríkjunum þar engu. Áður hafði flugfélagið gefið það út að það hygðist setja takmarkanir sem miðuðu við 85% nýtingu.
Nú hefur hins vegar breyting orðið þar á, en flugfélagið býður öll sæti vélanna til sölu. Ákvörðun stjórnenda American Airlines hefur ekki hlotið mikinn hljómgrunn meðal lækna í Bandaríkjunum. „Þetta sendir ekki rétt skilaboð,“ var haft eftir Robert Redfield, yfirmanni Sóttvarnarstofnunar Bandaríkjanna (CDC).
Til að bregðast við gagnrýninni sendi flugfélagið frá sér yfirlýsingu. Í henni segir að til að bregðast við áhyggjum farþega standi þeim til boða að færa flugmiðana án endurgjalds allt fram til loka septembermánaðar. Þannig verði vellíðan og öryggi farþega áfram í fyrirrúmi.