Heildarfjöldi farþega hjá Icelandair í júní var rúmlega 19 þúsund samanborið við um 553 þúsund á sama tíma í fyrra, sem er um 97% samdráttur á milli ára.
Þetta er þó töluverð aukning frá því í maímánuði þegar heildarfjöldi farþega var aðeins um þrjú þúsund.
Heildarframboð minnkaði um 96% á milli ára eftir því sem fram kemur í tilkynningu. Fjöldi farþega hjá Air Iceland Connect var um 12 þúsund í júní og fækkaði um 52% á milli ára. Framboð minnkaði um 63%.
Flutningastarfsemi Icelandair gekk þó vel í júní og drógust fraktflutningar aðeins saman um 9% á milli ára. Samdrætti í farþegaflugi hefur verið mætt með auknum ferðum fraktvéla félagsins bæði til Bandaríkjanna og Evrópu.
Icelandair hóf að auka áætlunarflug á ný 15. júní þegar aflétting ferðatakmarkana hófst í Evrópu. Lögð hefur verið áhersla á að halda uppi lágmarksflugsamgöngum til og frá landinu undanfarnar vikur og mánuði.