Fyrirtækið Uber hefur tilkynnt um kaup á sprotafyrirtækinu Postmates fyrir 2,65 milljarða dala, sem samsvarar um 370 milljörðum kr., sem greiddir verða með hlutafé í Uber.
Fyrirtækið Postmate býður upp á heimsendingar á mat fyrir viðskiptavini veitingastaða en félagið, sem var stofnað fyrir níu árum, hefur vaxið hratt í kórónuveirufaraldrinum. Markaðshlutdeild þess er um átta prósent á heimsendingarmarkaði í Bandaríkjunum og er fyrirtækið það fjórða stærsta á eftir DoorDash, Grubhub og Uber Eats, þjónustu Uber á þessu sviði, en Postmates verður fellt undir það vörumerki.
Yfirtaka Uber er að sögn tilraun til að auka fjölbreytni í rekstrarmódeli fyrirtækisins og viðleitni til að festa sig í sessi á hratt vaxandi markaði heimsends skyndibita í Bandaríkjunum, en Uber hafði áður reynt að komast yfir keppinautinn Grubhub sem einnig stundar heimsendingar á mat.
„Uber og Postmates hafa löngum deilt þeirri trú að vettvangur líkt og okkar geti drifið mun meira en bara dreifingu á mat — hann geti verið gríðarmikilvægur hluti í hverfisverslun og nærsamfélögum, einkum á krísutímum líkt og COVID-19,“ segir í uppskrúfaðri yfirlýsingu Dara Khosrowshahi, forstjóra Uber.
Hann hefur sagt greinendum að mikil stærðarhagkvæmni sé fólgin í yfirtökunni; hægt verði að ná niður kostnaði og lækka verð til neytenda. Þá muni hún einnig flýta fyrir því að félagið geti skilað hafnaði, en fyrirtækið skilaði enn meira tapi á fyrsta ársfjórðungi 2020 en ársfjórðungnum á undan.