Boðað hefur verið til fundar í kjaradeilu flugfreyja og Icelandair hjá ríkissáttasemjara á morgun. Þetta staðfestir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, í samtali við mbl.is. Er þetta fyrsti samningafundurinn eftir að flugfreyjur felldu nýjan kjarasamning í gær.
Guðlaug segist bjartsýn fyrir viðræður morgundagsins. „Ég er alltaf bjartsýn og við erum eins og ég hef áður sagt ávallt tilbúnar í viðræður,“ segir Guðlaug sem aðspurð kveðst enn hafa fullt umboð félagsmanna. „Ég er með fullt umboð minna félagsmanna. Það er ekki nýtt af nálinni að samningar séu felldir, og sérstaklega ekki þegar verið er að gera svona veigamiklar breytingar,“ segir Guðlaug.
Frá því að samningarnir voru felldir hafa verið uppi sögusagnir um að forsvarsmenn Icelandair hafi svikið heiðursmannasamkomulag í viðræðunum. Hafa þeir verið sakaðir um að skilja vísvitandi eftir atriði sem bæta átti við samninginn eftir undirritun samningsaðila. Spurð um málið segir Guðlaug að hún vilji ekki tjá sig um það.
„Við ætlum ekki að fara út í einstök efnisatriði. Þau skipta tugum í þessum viðræðum og þessi atriði eru eitthvað sem félagsmenn skilja,“ segir Guðlaug og bætir við að engar hugmyndir hafi verið uppi um verkfall meðal flugfreyja Icelandair. „Það hafa ekki verið neinar þreifingar um slíkt. Við gefum okkur að fullu í viðræðurnar.“