Orkuveita Reykjavíkur gerir ekki ráð fyrir því að greiða Glitni Holdco. þær 747,3 milljónir króna, auk dráttarvaxta síðustu 11 til 12 ár, sem félagið var dæmt til að greiða í héraðsdómi í gær fyrr en Landsréttur hefur tekið málið fyrir.
Þetta segir Elín Smáradóttir yfirlögfræðingur Orkuveitur Reykjavíkur í samtali við mbl.is. Í tilkynningu frá Orkuveitunni frá því í gær kom fram félagið hafi lagt til hliðar höfuðstól kröfunnar, upp á um 740 milljónir króna sem varúðarfærslu. Ekki er búið að leggja fyrir fyrir vöxtunum.
„Nei það er ekki búið. Þessar 740 milljónir eru varúðarfærsla í bókhaldinu en það hefur alltaf verið gert grein fyrir því í allri umfjöllun og í lögfræðibréfum til endurskoðenda að þetta mál sé í gangi og að þetta sé einungis stefnufjárhæðin og svo kunni að bætast við bæði málskostnaður og eftir atvikum vextir og dráttarvextir.
Orkuveitan hefur ekki reiknað nákvæmlega út hverjir vextirnir verða enda fer það á endanum eftir því hvort Landsréttur staðfestir niðurstöðu Héraðsdóm Reykjavíkur eða hvort hann kemst að annarri niðurstöðu, hvort sem er um greiðsluskyldu Orkuveitunnar eða frá hvaða degi vextir verða dæmdir.
„Við gerðum frekar ráð fyrir því að það yrðu dæmdir dráttarvextir frá stefnudeginum en þeir eru dæmdir frá 2008 þegar samningarnir eru að falla á gjalddaga hver á fætur öðrum. Það er talsverður munur til hækkunar en við erum ekki komin með nákvæman útreikning á því,“ tekur hún fram.
En frestar áfrýjun réttaráhrifum dómsins?
„Þessi regla um að áfrýjun fresti ekki réttaráhrifum er fyrst og fremst í stjórnsýslunni, en það er að minnsta kosti ekki vaninn að gera upp fyrr en að endanleg niðurstaða er komin. En ef að þetta yrði staðfest þá safnast áfram upp vextir.“
Getur Orkuveitan staðið undir þeim kostnaði ef að dómur héraðsdóms yrði staðfestur fyrir Landsrétti?
„Já fjárhagsleg staða Orkuveitunnar er mjög sterk um þessar mundir og allt önnur en þegar málinu var stefnt í upphafi,“ segir Elín.