Vangaveltur um tekjutap Landsvirkjunar vegna hugsanlegrar uppsagnar raforkusamnings við Rio Tinto á Íslandi eru ekki tímabærar. Þá eru traustar ábyrgðir að baki skuldbindingum beggja aðila í núgildandi raforkusamningi. Þetta segir Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.
„Samningur fyrirtækjanna gildir til 2036, en áður hefur verið greint frá því að hægt sé að virkja endurskoðunarákvæði í samningnum. Við teljum hins vegar traustar ábyrgðir fyrir skuldbindingum beggja aðila í núgildandi raforkusamningi og það hefur enginn ágreiningur verið um það í þeim viðræðum sem staðið hafa yfir undanfarið,“ segir Ragnhildur.
Nú í morgun var greint frá því að Rio Tinto hygðist loka álverum sínum í Nýja-Sjálandi á næsta ári. Er það talið til marks um bága stöðu álvera víða um heim. Vegur hátt raforkuverð og slæmar skammtímahorfur á álmarkaði þar þyngst.
Viðræður milli Landsvirkjunar og Rio Tinto hafa nú staðið yfir um nokkurt skeið. Hafa hugsanlegar breytingar á raforkusamningi verið þar til umræðu. Að sögn Ragnhildar hefur Landsvirkjun sýnt aðstæðum Rio Tinto mikinn skilning.
„Við leggjum okkur fram um gott samstarf við viðskiptavini okkar og höfum sýnt á undanförnum mánuðum að fyrirtækið er reiðubúið til að koma til móts við þá á erfiðum tímum. Auðvitað sýnum við því fullan skilning að markaðsbrestur hefur orðið í kjölfar Covid-faraldursins. Þess vegna bauð Landsvirkjun t.d. öllum stórnotendum afslátt af raforkuverði í hálft ár, sem nemur allt að 25%,“ segir Ragnhildur og bætir við að Rio Tinto hafi ekki orðið við ósk fyrirtækisins um að aflétta leynd raforkusamninga fyrirtækjanna.