Vangaveltur um tekjutap ótímabærar

Rio Tinto telur ekki hægt að selja álverið í Straumsvík …
Rio Tinto telur ekki hægt að selja álverið í Straumsvík en til athugunar er að hætta starfseminni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vangaveltur um tekjutap Landsvirkjunar vegna hugsanlegrar uppsagnar raforkusamnings við Rio Tinto á Íslandi eru ekki tímabærar. Þá eru traustar ábyrgðir að baki skuldbindingum beggja aðila í núgildandi raforkusamningi. Þetta segir Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. 

„Samningur fyrirtækjanna gildir til 2036, en áður hefur verið greint frá því að hægt sé að virkja endurskoðunarákvæði í samningnum. Við teljum hins vegar traustar ábyrgðir fyrir skuldbindingum beggja aðila í núgildandi raforkusamningi og það hefur enginn ágreiningur verið um það í þeim viðræðum sem staðið hafa yfir undanfarið,“ segir Ragnhildur. 

Hafa komið til móts við Rio Tinto

Nú í morgun var greint frá því að Rio Tinto hygðist loka álverum sínum í Nýja-Sjálandi á næsta ári. Er það talið til marks um bága stöðu álvera víða um heim. Vegur hátt raforkuverð og slæmar skammtímahorfur á álmarkaði þar þyngst. 

Viðræður milli Landsvirkjunar og Rio Tinto hafa nú staðið yfir um nokkurt skeið. Hafa hugsanlegar breytingar á raforkusamningi verið þar til umræðu. Að sögn Ragnhildar hefur Landsvirkjun sýnt aðstæðum Rio Tinto mikinn skilning. 

„Við leggjum okkur fram um gott samstarf við viðskiptavini okkar og höfum sýnt á undanförnum mánuðum að fyrirtækið er reiðubúið til að koma til móts við þá á erfiðum tímum. Auðvitað sýnum við því fullan skilning að markaðsbrestur hefur orðið í kjölfar Covid-faraldursins. Þess vegna bauð Landsvirkjun t.d. öllum stórnotendum afslátt af raforkuverði í hálft ár, sem nemur allt að 25%,“ segir Ragnhildur og bætir við að Rio Tinto hafi ekki orðið við ósk fyrirtækisins um að aflétta leynd raforkusamninga fyrirtækjanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK