860 mkr. í miðjum faraldri

Ágóðinn af peningaþvætti er notaður um allan heim til að …
Ágóðinn af peningaþvætti er notaður um allan heim til að fjármagna mansal og hryðjuverk m.a. Haraldur Jónasson/Hari

Nýsköpunarfyrirtækið Lucinity, sem framleiðir gervigreindarhugbúnað sem hjálpar fyrirtækjum að berjast gegn peningaþvætti, hefur tryggt sér fjármögnun upp á rúmar sex milljónir bandaríkjadala, eða jafnvirði um 860 milljóna íslenskra króna. Samtals hefur fyrirtækið safnað níu milljónum dala frá því það var stofnað árið 2018, eða jafnvirði ríflega 1,3 milljarða króna. Þar af koma 6,5 milljónir dala að utan.

Guðmundur Kristjánsson, framkvæmdastjóri og stofnandi fyrirtækisins, segir í samtali við Morgunblaðið að vel hafi gengið við sölu á hugbúnaði fyrirtækisins á síðustu mánuðum. „Við sáum ákveðin tækifæri myndast í mars sl. Ástandið sem skapaðist vegna kórónuveirufaraldursins varð til þess að margir vöknuðu upp við vondan draum hvað varðar varnir gegn peningaþvætti. Bankar hættu að geta séð með góðu móti hvað peningaþvottur var, því gömlu kerfin náðu ekki nógu vel utan um þetta. Einnig hafði það áhrif að í ástandinu fóru allir að vinna heima.“

Skilja betur hvað er á skjánum

Guðmundur segir að Lucinity hafi því farið í viðræður við erlenda fjárfesta um aðkomu að fyrirtækinu og það hafi gengið vel þrátt fyrir að fundirnir hafi farið fram með fjarfundabúnaði vegna kórónuveirunnar.

„Okkar lausn er bæði í því að finna peningaþvott, en hjálpar líka fólki að skilja hvað það er að horfa á á skjánum. Við hjálpum fólki að skilja hvað er peningaþvottur og hvað ekki.“

Kerfið er hannað þannig að þjálfun starfsfólks tekur minni tíma. Það sparar kostnað, tíma og fyrirhöfn.

Spurður um mælanlegan árangur af notkun kerfisins segist Guðmundur ekki geta gefið upp hvað afköst aukast mikið við að greina peningaþvætti, en þau séu margföld á við sambærileg kerfi.

Um fjármögnunina sjálfa segir Guðmundur að mikill áhugi hafi verið á fyrirtækinu.

Núverandi fjárfestar líka með

Fjárfestarnir sem nú koma að fyrirtækinu eru Karma Ventures og byFounders, en einnig tóku núverandi fjárfestar þátt í útboðinu, Crowberry Capital og Preceptor Capital.

„Fjárfestar eins og byFounders og Karma Ventures eru ómetanlegir,“ segir Guðmundur. „Vilji þeirra til að fara út fyrir þægindarammann og fjárfesta við jafn erfiðar aðstæður og nú eru uppi segir sitt um trú þeirra á því hvað við erum að gera. Við getum varla beðið eftir samstarfinu við þá í framtíðinni. Bæði fyrirtækin koma með gríðarlegt virði inn í Lucinity í gegnum tengslanet sitt og reynslu við að byggja upp stórkostleg Saas-fyrirtæki (hugbúnaður sem þjónusta).“

1% árangur af baráttu

Eins og Guðmundur útskýrir er kerfinu ætlað að berjast gegn peningaþvætti í heiminum, sem nemur samtals trilljónum bandaríkjadala á ári hverju. Eins og fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu reyna aðilar á markaði að stemma stigu við þvættinu, en árangur er aðeins um 1%.

Í tilkynningunni segir einnig að ágóðinn af peningaþvætti sé notaður um allan heim til að fjármagna verstu glæpi sem stundaðir eru, eins og mansal og hryðjuverk.

Viðskiptavinir Lucinity eru bæði smáir og stórir aðilar á fjármálamarkaði.

Peningaþvætti
» Lucinity er með starfsstöð á Íslandi og í New York.
» Átján manns starfa hjá fyrirtækinu í dag en stefnt er að því að fjölga starfsmönnum í 30-35 á þessu ári og í 45-50 á því næsta.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK