Það sem af er þessu ári hefur ríkissjóður greitt út um 1,52 milljarða vegna endurgreiðslukerfis kvikmynda sem Kvikmyndamiðstöð Íslands annast fyrir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Samtals er um að ræða 40 verkefni sem hafa fengið endurgreiðslu, en fimm stærstu verkefnin fá tvo þriðju hluta fjármagnsins, eða rúmlega einn milljarð. Eru það fjögur erlend kvikmyndaverkefni og eitt innlent. Þetta má sjá af uppfærðum tölum Kvikmyndamiðstöðvarinnar, en Rúv greindi fyrst frá.
Stærsta einstaka verkefnið er kvikmyndin The Midnight Sky, en það er George Clooney sem bæði leikur og leikstýrir myndinni fyrir Netflix. Fékk verkefnið 313 milljónir endurgreiddar. Um er að ræða vísindaskáldsögu, en auk Clooney leikur Felicity Jones aðalhlutverk í myndinni.
Næst hæsta upphæðin fór til The Tomorrow War, en þar fer Chris Pratt með aðalhlutverk. Nemur endurgreiðsla verkefnisins 205 milljónum.
Heildarupphæðin sem nú er komin er þegar um 40% hærri upphæð en allt síðasta ár þegar endurgreiðslur námu 1,1 milljarði. Árið 2018 var um einn milljarður greiddur út vegna endurgreiðslukerfisins.
Ríkisstjórnin samþykkti fyrr á árinu að endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi gætu orðið 2.120 milljónir króna.
Önnur stór verkefni eru íslensku glæpaþættirnir Brot með 193 milljónir í endurgreiðslu, vísindaskáldsöguþættirnir Foundation með 165 milljónir og Eurovision gamanmyndin með Will Ferrell og Rachel McAdams í aðalhlutverki, en endurgreiðslur til myndarinnar námu 135 milljónum.
Listann í heild má nálgast hér, en íslenska framleiðslufyrirtækið Truenorth kemur að flestum stóru verkefnunum, meðal annars öllum fimm sem nefnd eru hér að ofan.