Hækkun verðbólgu sem birt var af Hagstofunni í morgun kom mjög á óvart og var langt umfram það sem greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir. Helsta muninn milli spáa og mælingar Hagstofunnar er meðal annars að finna í því að samkvæmt spám hefðu áhrif sumarútsala átt að vera mun meiri en kemur fram í mælingunni. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,15% milli mánaða sem leiðir til þess að tólf mánaða verðbólga mælist 3% samanborið við 2,6% í síðusta mánuði.
Þar er rýnt í undirflokka mælingar Hagstofunnar, en föt og skór lækkuðu meðal annars um 3,6% milli mánaða. Segir hagfræðideildin að þetta komi verulega á óvart, en síðustu ár hafi þessi liður lækkað um meira en 10% frá júní til júlí. „Svo virðist sem sumarútsölurnar voru annað hvort ekki byrjaðar í verðkönnunarvikunni eða að áhrif þeirra verði ekki verulegar á vísitöluna í ár,“ segir í Hagsjánni.
Húsgöng og heimilisbúnaður lækkuðu einnig mun minna en síðustu ár, en lækkunin nam -0,59% nú. Þá hækkaði liðurinn tómstundir og menning um 0,58% milli mánaða, en þar undir er meðal annars heilsurækt sem hækkaði um 4%. Bendir hagfræðideildin meðal annars á að World Class hafi hækkað verð á heilsuræktarkortum um 16%.
Þá hækkaði bensín um 2,9%, sem hagfræðideildin segir að hafi verið meiri hækkun en verðmæling þeirra hafi bent til.
Spáði deildin því að munurinn sem hefði átt að koma til vegna sumarútsala myndi ganga til baka í ágúst og september og því sé ekki gert ráð fyrir miklum breytingum á verðbólguhorfur til næstu mánaða. Er þannig spáð því að ársverðbólga verði 2,6% í október.