Icelandair hefur samið við flesta kröfuhafa

Þotur Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Þotur Icelandair á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Samningaviðræður Icelandair við köfuhafa sína eru vel á veg komnar og hefur félagið nú undirritað samninga við flesta kröfuhafa og náð samkomulagi í meginatriðum við þá sem eftir eru. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group um stöðu fjárhagslegrar endurskipulagningar félagsins.

Icelandair gerir ráð fyrir að þeir samningar sem eftir eru verði undirritaðir í næstu viku. Samningarnir eru háðir því að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár og geri samning um lánalínu með ríkisábyrgð. Samningaviðræður við kröfuhafa hafa miðað að því að laga afborganir að væntu sjóðstreymi frá rekstri.

„Þessir samningar tryggja nauðsynlegan sveigjanleika til að geta byggt starfsemi félagsins upp hratt og örugglega á ný þegar markaðir opnast og eftirspurn fer að aukast,“ segir í tilkynningunni. 

„Eins og áður hefur verið tilkynnt er samkomulag við helstu hagaðila Icelandair Group forsenda þess að félagið geti hafið fyrirhugað hlutafjárútboð og lokið við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins.“

Viðræður um lán með ríkisábyrgð langt komnar

Icelandair hefur nú þegar undirritað nýja langtímasamninga við stéttarfélög flugmanna, flugfreyja og flugþjóna og flugvirkja. Félagið segir að þeir samningar muni auka sveigjanleika og samkeppnishæfni félagsins til lengri tíma.

„Unnið hefur verið að útfærslu á láni með ríkisábyrgð með íslenskum stjórnvöldum, Íslandsbanka og Landsbankanum og eru viðræður langt komnar. Eins og fram hefur komið verður lánafyrirgreiðsla stjórnvalda meðal annars háð því að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár. Þá eru samningaviðræður við Boeing vel á veg komnar en viðræðurnar snúast um frekari bætur vegna kyrrsetningar MAX-vélanna og að breytingar verði gerðar á áætlun um framtíðarafhendingu MAX-flugvéla,“ segir í tilkynningunni.  

Þegar allir samningar liggja fyrir mun Icelandair Group birta fjárfestakynningu með ítarlegum upplýsingum fyrir fjárfesta og þátttakendur í fyrirhuguðu hlutafjárútboði. Í kjölfarið verður skráningarlýsing birt en gert er ráð fyrir að hlutafjárútboði muni ljúka í ágúst. Upplýsingar um fjölda útgefinna hluta og gengi verða birtar um leið og ákvörðun stjórnar félagsins um þau atriði liggur fyrir. 

Nánar verður fjallað um horfur félagsins í fjárfestakynningu og skráningarlýsingu sem birtar verða fjárfestum í aðdraganda hlutafjárútboðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK