Samningaviðræður við kröfuhafa í tengslum við fyrirhugað hlutafjárútboð Icelandair eru í fullum gangi og verið er að hnýta lausa enda.
Stefnt er að því að klára viðræður í þessari viku, að sögn Ásdísar Ýrar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, sem vísar í tilkynningu þess efnis sem Icelandair sendi frá sér síðastliðinn föstudag.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, greindi frá því fyrr í vikunni að allir angar fjárhagslegrar endurskipulagningar félagsins séu háðir því að hlutafjárútboð gangi vel. Stefnt er að því að það fari fram í ágúst.
Hann sagði stefnt að því að klára viðræður um fjárhæðir og ganga frá lokasamkomulagi við íslensku bankana í þessari viku.