Torg ehf., útgáfufélag Fréttablaðsins, DV, Hringbrautar og fleiri miðla, tapaði 212 milljónum króna á síðasta ári. Rekstrartekjur félagsins námu 2,3 milljörðum og drógust saman um 10% milli ára. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir jafnframt að rekstrarafkoma félagsins (EBITDA-afkoma) hafi verið neikvæð um 59 milljónir, en afskriftir námu 138 milljónum. Þá segir að kostnaður vegna sameiningar fyrirtækja hafi verið gjaldfærður á árinu og haft neikvæð áhrif á afkomuna.
Hjá Torgi starfa um 100 manns.
Torg er í 100% eigu félagsins HFB-77 ehf., en fjárfestirinn Helgi Magnússon er 82% eigandi þess í gegnum Varðberg ehf. Sigurður Arngrímsson er 10% eigandi í gegnum Saffron Holding 1 ehf. og Jón Guðmann Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, er með 5% hlut. Guðmundur Örn Jóhannsson er 3% eigandi.