Súkkulaðiframleiðslufyrirtækið Omnom jók tekjur sínar um nær 30% á nýliðnu rekstrarári. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2019.
Alls námu rekstrartekjur Omnom rétt um 344 milljónum króna, en til samanburðar voru þær tæplega 265 milljónir króna árið áður. Þrátt fyrir mikla tekjuaukningu milli ára var félagið rekið með tapi. Nam tapið nær 12 milljónum króna, sem er um fjórum milljónum króna minna tap en árið 2018.
Rekstrarhagnaður Omnom fyrir afskriftir og skatta var jákvæður um 25,5 milljónir króna. Hins vegar vógu afskriftir upp á 26 milljónir króna og ríflega 14 milljóna króna fjármagnskostnaður mjög þungt. Varð niðurstaða ársins því tap upp á 11 milljónir króna.
Að því er fram kemur í efnahagsreikningi voru eignir undir árslok 266 milljónir króna. Þá var eigið fé rétt um 100 milljónir króna og því var eiginfjárhlutfallið 38%. Alls voru skuldir Omnom 166 milljónir króna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.