Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði að meðaltali um 1,2% milli júní og júlí samkvæmt tölum Þjóðskrár. Verð á fjölbýli hækkaði um 1,1% og verð á sérbýli um 1,4%.
„Hækkunin er býsna mikil milli mánaða hvort sem litið er til þróunar í sérbýli eða fjölbýli. Þetta er annar mánuðurinn í röð þar sem sérbýli hækkar verulega, en hækkunin mældist 2,5% milli mánaða í júní. Samantekið er þetta mesta hækkun sem hefur orðið á íbúðaverði milli mánaða síðan í maí 2017,“ samkvæmt Hagsjá hagdeildar Landsbankans.
Verð annarra vara en húsnæðis hækkaði um 0,2% milli mánaða í júlí og hækkaði raunverð íbúða því um 1%. Þetta er í fyrsta sinn síðan í mars sem hækkun mælist á raunverði milli mánaða og er þetta mesta hækkunin síðan í janúar á þessu ári. Sé litið til þróunar lengra aftur í tímann má þó sjá að 12 mánaða hækkun raunverðs er nokkuð hófleg nú, eða 1,5% segir í Hagsjánni.
Óvenju mörgum kaupsamningum var þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í júlí, alls 722 talsins, sem eru 121 fleiri en í júlímánuði fyrir ári. Ekki er ljóst hvort þetta séu allt kaupsamningar vegna viðskipta sem áttu sér stað í mánuðinum, eða hvort um tímatöf í gögnunum sé að ræða, og þá hve mikla. Líklegt þykir að um einhverja tímatöf sé að ræða þar sem fáum kaupsamningum var þinglýst í mánuðunum á undan, eða 355 talsins í júní og 467 í maí.
„Það er ljóst að nýjustu tölur, hvort sem litið er til fjölda kaupsamninga, útlánavaxtar eða verðþróunar, gefa til kynna að fasteignamarkaður sé líflegur um þessar mundir þrátt fyrir veirufaraldur og efnahagslegar afleiðingar hans. Staðan virðist því hafa verið nokkuð góð í sumar og er óljóst hvað gerist með haustinu, en ef fram fer sem horfir er ekki útlit fyrir stöðnun á þessum markaði í bráð,“ segir ennfremur í Hagsjá Landsbankans.