Hertar sóttvarnir vegna kórónuveirunnar hafa þegar haft áhrif á tekjur og væntingar í ferðaþjónustu.
Þráinn Lárusson, eigandi Hótels Hallormsstaðar og Hótels Valaskjálfar, segir afbókanir hafa hrannast inn síðustu daga. „Við höfum fengið mörg hundruð afbókanir. Við þurfum bara að skella í lás,“ segir Þráinn sem ráðgerir að á sjötta tug starfsfólks verði sagt upp vegna samdráttar.
Hjá ferðaskrifstofunni Úrvali-Útsýn er til skoðunar hvort fella eigi niður flug á vegum fyrirtækisins. Að sögn Þórunnar Reynisdóttur, forstjóra ferðaskrifstofunnar, munu hertar aðgerðir á landamærunum hafa talsverð áhrif á reksturinn.
Bjarni Jónsson, eigandi Nordic Store-keðjunnar ásamt Hafsteini Guðbjartssyni, reiknar með að þurfa að loka verslunum keðjunnar um mánaðamótin og segja öllum upp.
Nordic Store-keðjan er með nokkrar verslanir í miðborginni.
Þá má nefna að bakaríi Jóa Fel í Borgartúni verði lokað vegna minnkandi eftirspurnar í hagkerfinu.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir þá fyrstu sem sóttu um greiðslufrest, einstaklinga og fyrirtæki, munu ljúka honum í september. Þá þurfi bankinn að fara að vinna með þeim aðilum.
Margir þeirra eru í ferðaþjónustu.
„Mörg fyrirtækin voru að skila góðum rekstri og sum hver voru mjög sterk en þetta er grein í uppbyggingu og þannig eiga þau erfiðara með að taka við áfalli sem þessu,“ segir Lilja Björk um stöðu fyrirtækjanna.
Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir brýnt að bera saman kosti þess að endurreisa ferðaþjónustuna við aðra kosti við endurreisn efnahagslífsins. Meta þurfi áhættuna og hagsmunirnir séu miklir.