Virðisaukaskattskyld velta ferðaþjónustu dróst saman um 59% í mars-apríl miðað við sama tímabili árið 2019 og nam rúmlega 34 milljörðum króna samanborið við 84 milljarða króna á síðasta ári. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
Í mars voru rúmlega 23 þúsund starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu eða um 12% færri en sama mánuð árið áður. Flestir voru starfandi við rekstur gististaða og veitinga, eða tæplega 14 þúsund, sem er 14% lækkun borið saman við sama mánuð árið áður. Á tímabilinu apríl 2019 til mars 2020 fækkaði starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu um 6% samanborið við síðustu 12 mánuði þar áður.
Samkvæmt tilraunatölfræði gistinátta er áætlað að gistinætur á hótelum í júlí hafi dregist saman um 47% og fækkað úr tæplega 508 þúsund í 269 þúsund samanborið við júlí í fyrra.
Í júni fækkaði skráðum gistinóttum um 72%, úr tæplega 943 þúsund í rúmlega 263 þúsund, samanborið við júní í fyrra. Gistinóttum á hótelum og gistiheimilum fækkaði úr 574 þúsund í 128 þúsund á sama tímabili, eða um 78%, á meðan aðrar skráðar gistinætur lækkuðu úr 368 þúsund í 136 þúsund eða um 63%. Nýting hótelherbergja lækkaði um 51 prósentustig, úr 72% niður í 21% á sama tímabili. Framboð hótelherbergja lækkaði einnig um 24% og fór úr 11 þúsund herbergjum niður í rúmlega 8 þúsund herbergi á sama tímabili.
Samkvæmt talningu ISAVIA fóru 59 þúsund farþegar af landi brott í gegnum Leifsstöð í júlí, sem er 80% fækkun samanborið við júlí í fyrra, á meðan 69 þúsund farþegar komu til landsins sem er 77% lækkun borið saman við sama mánuð í fyrra. Skiptifarþegum fækkaði á sama tíma úr tæplega 242 þúsund í rúmlega 3 þúsund eða um tæp 99%.
Í þessari útgáfu skammtímahagvísa ferðaþjónustu eru birtar uppfærðar tölur um gistinætur, virðisaukaskattskylda veltu og fjölda starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu. Auk þess eru birtar uppfærðar tölur um bílaleigubíla frá Samgöngustofu, umferðartölur frá Vegagerðinni og talningu farþega til landsins samkvæmt talningu Ferðamálastofu auk talna um farþegahreyfingar frá ISAVIA.