Fljúgi til allra áfangastaða fyrir næsta sumar

A380-þota sem flýgur undir merkjum Emirates.
A380-þota sem flýgur undir merkjum Emirates. AFP

Flugfélagið Emirates býst við því að taka aftur upp flug til allra áfangastaða í flugkerfi félagsins fyrir næsta sumar, að því er yfirverkstjóri flugfélagsins greindi frá í dag. Flugáætlun félagsins hefur raskast verulega vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. 

Emirates er stærsta flugfélag Mið-Austurlanda og stefnir félagið á að fljúga til 143 áfangastaða fyrir næsta sumar. Eru það aðeins færri áfangastaðir en fyrir faraldurinn en þá voru þeir 157 talsins. 

„Ég held að við getum auðveldlega sagt að fyrir næsta sumar munum við þjónusta 100 prósent af áfangastöðum í flugkerfi okkar,“ sagði Adel al-Redha yfirverkstjóri í samtali við fréttastofu CNBC. 

„Augljóslega mun framboð á flugi daglega ráðast af eftirspurn og einhverjum takmörkunum sem þarf að draga úr á sumum flugvöllum og hjá sumum löndum,“ bætti Redha við. 

Fljúga til tvöfalt fleiri staða en nú

Samkvæmt heimasíðu Emirates flýgur félagið nú einungis til 70 áfangastaða og er því útlit fyrir að félagið muni fljúga til tvöfalt fleiri áfangastaða næsta sumar en nú. 

„Ef ég ber saman frammistöðu okkar við þá frammistöðu sem var fyrir mánuði þá höfum við nánast tvöfaldað farþegafjölda okkar,“ sagði Redha. 

Tim Clark, forstjóri Emirates, hefur áður sagt að það gæti tekið allt að fjögur ár fyrir flugfélagið að snúa sér aftur að fyrri flugáætlun og að flugfélagið gæti þurft að segja upp allt að 15 prósentum starfsfólks. 

Áður en faraldurinn hófst störfuðu um 60.000 hjá Emirates, þar af 4.300 flugmenn og nærri 22.000 aðrir í áhöfn félagsins. Höfuðstöðvar félagsins eru í Dúbaí en ferðaþjónusta hefur löngum verið efnahagslegur máttarstólpi ríkisins. Rúmar 16 milljónir ferðuðust þangað á síðasta ári og var markmið stjórnvalda í Dúbaí að 20 milljónir myndu ferðast þangað þetta árið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK