Stefán E. Stefánsson
Haldist gengi krónunnar lágt mun það tryggja Icelandair Group sterka samkeppnisstöðu, einkum þegar litið er til launakostnaðar.
Þetta kemur fram í gögnum sem kynnt hafa verið fjárfestum í tengslum við fyrirhugað hlutafjárútboð félagsins sem fram mun fara í september að veittu samþykki hluthafafundar sem boðað hefur verið til 9. þess mánaðar.
Styrkist gengi krónunnar mikið mun það gera félaginu erfiðara fyrir og hafa afgerandi áhrif á uppbyggingu þess til komandi ára. Hvergi í hinni ríflega 100 síðna fjárfestakynningu er hins vegar kveðið upp úr um hvar jafnvægisgengi krónunnar gagnvart viðskiptamyntum liggur, hvað teljist sterkt gengi eða veikt.
Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í gær gerir Icelandair ráð fyrir því í sínum spám að farþegar félagsins verði um 1,4 milljónir á næsta ári. Ekki liggur fyrir opinberlega hvernig félagið telur að sá markaður muni skiptast milli tengifarþega og þeirra sem hafa Ísland að áfangastað.