„Fyrir unga viðskiptamenn eins og sjálfan mig hefur þetta ástand verið mjög lærdómsríkt,“ segir Jóhannes Ásbjörnsson, einn eigenda Gleðipinna, um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á rekstur fyrirtækisins. Gleðipinnar hafa ekki farið varhluta af ástandinu sem skapast hefur sökum veirunnar. Loka hefur þurft nokkrum stöðum auk þess sem tekjur hafa dregist umtalsvert saman það sem af er ári.
Undir Gleðipinna heyra átta vörumerki og eru staðirnir á þriðja tug talsins. Aðspurður segir Jóhannes að stöðunum hafi fækkað á fyrstu átta mánuðum ársins. Í sumum tilfellum er hægt að rekja það beint til faraldursins. „Við erum búin að loka Eldsmiðjunni á Bragagötu og á Laugavegi. Síðarnefndi staðurinn er nú þegar kominn í eigu annars aðila. Þá var Kaffivagninn Grandagarði sömuleiðis seldur,“ segir Jóhannes en tekur fram að ákveðnir staðir hafi haldið dampi. Nefnir hann í því samhengi Aktu Taktu, Hamborgarafabrikkuna, Shake & Pizza og American Style. Þá er starfsemi Pítunnar í Skipholti áfram óbreytt og hélst óbreytt í gegnum faraldurinn. „Aktu Taktu og American Style héldu sér alveg. Hins vegar þurfti að gera ákveðnar breytingar á hinum stöðunum þegar veiran var að stríða okkur sem mest,“ segir Jóhannes.
Auk framangreindra staða eru Gleðipinnar með pítsustaðinn Blackbox, Saffran og Roadhouse í rekstri. Síðastnefnda staðnum var lokað í miðjum faraldri og hefur ekki verið opnaður aftur. Spurður hvort Roadhouse verði opnað að nýju segir Jóhannes að það sé enn óljóst. „Það er í raun bara enn í skoðun. Við eigum eftir að ákveða hvað við gerum í því,“ segir Jóhannes og bætir við að auk Roadhouse sé framtíð Saffran á Bíldshöfða í óvissu. Í upphafi árs voru Saffran-staðirnir fjórir talsins. „Við lokuðum staðnum í Bæjarhrauni fyrir kórónuveiruna og af öðrum ástæðum. Hann verður ekki opnaður aftur. Í faraldrinum ákváðum við síðan að loka staðnum á Bíldshöfða og höfum frá þeim tíma einungis verið með tvo Saffran-staði. Það getur vel verið að það verði svoleiðis áfram enda eiga þeir alveg að geta þjónustað þá sem vilja kaupa mat þaðan. Varðandi staðinn á Bíldshöfða þá erum við í ákveðnum pælingum. Það er til dæmis mögulegt að nýr staður verði opnaður eða að við losum húsnæðið. Við erum að skoða ýmsa kosti í stöðunni,“ segir hann.
Ljóst er að heimsfaraldur kórónuveiru kemur einna verst niður á rekstraraðilum veitingastaða. Þá hafa fjarlægðarmörk og fjöldatakmarkanir sett stórt strik í reikninginn. „Þetta setur okkur takmörk um hversu mörgum er hægt að taka á móti, en þetta hefur skánað mikið frá því að þetta var sem verst fyrr á árinu,“ segir Jóhannes og bætir við að óvissan sé verst. Af þeim sökum eiga rekstraraðilar erfitt með að gera áætlanir fram í tímann. „Við getum svo sem lítið kvartað. Ég hugsa frekar til vina minn í ferðaþjónustu og þeirra sem reka skemmtistaði. Það er erfitt að vera í þeirra sporum. Við erum bjartsýn og vonum að það komist ákveðið jafnvægi á þetta. Það eru hins vegar þessar sveiflur fram og til baka sem reynast okkur erfiðar.“
Að hans sögn gekk ágætlega að halda dampi í gegnum ástandið. Þá sótti fjöldi viðskiptavina veitingastaði keðjunnar í júní- og júlímánuði. „Þessir mánuðir voru mjög góðir og viðspyrnan var sterk eftir að losað var um höft og fólki fór að líða vel aftur. Nú eru aftur komnar takmarkanir en þó miklu minni en voru í byrjun árs. Við vonum að þetta taki fljótt af og við sjáum takmarkanir fara upp aftur sem fyrst. Fyrst og fremst snýst þetta þó um heildina og þess vegna verðum við að halda veirunni í skefjum,“ segir Jóhannes.
Fyrr á þessu ári var greint frá samruna fyrirtækjanna FoodCo og Gleðipinna. Jóhannes hafði áður séð um rekstur síðarnefnda fyrirtækisins. Voru fyrirtækin sameinuð með það fyrir augum að ná fram aukinni stærðarhagkvæmni á veitingamarkaði. Aðspurður segir Jóhannes að umræddur samruni hafi auðveldað stöðunum að komast í gegnum ástandið. „Í raun og veru hafði verið mjög þröngt á veitingamarkaði í aðdraganda kórónuveirunnar. Það helgaðist af miklum vexti í ferðaþjónustu og offjárfestingu í veitingageiranum. Á þessum tíma fór af stað mikið launaskrið ásamt verðstríði staða á markaðnum. Af þeim sökum þótti okkur eðlilegt að sameina og ná þannig fram aukinni rekstrarhagkvæmni. Það hefði gagnast okkur fyrir veiruna og gerir enn frekar núna. Það er margt fengið með stærðinni þegar kostnaðarliðir vinna á móti þér,“ segir Jóhannes sem kveðst bjartsýnn þrátt fyrir erfiða tíma. Þá hafi síðustu mánuðir reynst dýrmætur lærdómur. „Menn koma misvel inn í svona ástand og það borgar sig að hafa verið skynsamur enda eiga menn þá meira súrefni. Ég er bjartsýnn á að það komist jafnvægi á markaðinn hér heima aftur. Þetta er ákveðinn lærdómur sem maður gengur í gegnum og tekur með sér áfram.“
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. ágúst.