Vanskil fyrirtækja á lífeyrisiðgjöldum starfsfólks geta haft ýmsar aðrar afleiðingar en þær sem felast í beinni réttindaskerðingu lífeyris. Margir sjóðfélagar lífeyrisjóðanna sækja þangað aðra þjónustu, einkum tengda lánafyrirgreiðslu. Morgunblaðið ræddi m.a. við starfsmann Jóa Fel sem neitað var um sjóðfélagalán hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna.
Lífeyrissjóðurinn hefur krafist gjaldþrotaskipta hjá bakarískeðjunni Jóa Fel vegna vangoldinna iðgjalda sem fyrirtækið hefur innheimt af launum starfsfólks en ekki skilað til sjóðsins. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins.
Ástæðan sem sjóðurinn gaf fyrir því að starfsmanninum var neitað um lán var sú að sjóðfélaginn uppfyllti ekki skilyrði fyrir lántöku. Reglurnar kveða á um að sjóðfélagi geti sótt um lán hafi hann greitt iðgjöld í sex af síðustu 12 mánuðum fyrir umsókn eða í samtals 36 mánuði fyrir umsókn. Þannig geta atvinnurekendur sem ekki standa í skilum fyrirgert mikilvægum réttindum starfsfólks án þess að það geti rönd við reist.
Sjóðurinn tjáir sig ekki um málefni einstakra fyrirtækja en þar fékkst þó staðfest að sjóðurinn bjóði ekki upp á að iðgjöld séu gerð upp af launum sumra starfsmanna en annarra ekki. Af þeim svörum að dæma má gera ráð fyrir að allir starfsmenn fyrirtækisins sem hafa talið sig vera að safna lífeyrisréttindum hjá LIVE hafi verið hlunnfarnir hjá fyrirtækinu frá því í apríl í fyrra.
Samkvæmt upplýsingum frá LIVE sendir sjóðurinn ógreidd iðgjöld í löginnheimtu um 3 til 4 mánuðum eftir að vanskil verða. Reynt sé að sýna atvinnurekendum sveigjanleika þar sem hægt er að koma því við og greiðsluvilji sé til staðar. Beri innheimtan ekki árangur er lögð fram fjárnámsbeiðni hjá sýslumanni sem oft ljúki með árangurslausu fjárnámi. Þegar þau úrræði ásamt öðrum greiðsluáskorunum hafa verið fullreynd er beiðni lögð fyrir héraðsdóm um gjaldþrotaskipti.
Mun sjóðurinn, líkt og aðrir lífeyrissjóðir í landinu, leggja áherslu á að slík beiðni sé lögð fram innan 18 mánaða frá því vanskil hefjast. Er það gert þar sem ábyrgðarsjóður launa ábyrgist greiðslur vegna vangoldinna iðgjalda eitt og hálft ár aftur í tímann.
Í ViðskiptaMogganum á miðvikudag var fjallað um að Jói Fel hefði lokað nýjasta útsölustað sínum í Borgartúni. Heimildir blaðsins herma að útburðarmál sé í burðarliðnum sem rekið er af lögmanni eiganda leigusala fyrirtækisins í Borgartúni 29.
Ekki hefur náðst í Jóhannes Felixson, eiganda fyrirtækisins, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.