Pósturinn hefur ákveðið að bæta við dreifingardegi á laugardögum á höfuðborgarsvæðinu vegna aukinnar netverslunar hér á landi. Helsti kostur laugardagsdreifingar er að sendingar sem áður voru afhentar á mánudegi verða nú afhentar á laugardegi og styttist því biðtími eftir sendingum.
Fram kemur í tilkynningu frá Póstinum að heimkeyrsla á laugardögum muni fara fram milli klukkan 10 og 14, en einnig verður fyllt á póstbox og farið með sendingar í pakkaport á sama tíma.
Breytingin tekur strax gildi og verður fyrsta laugardagsdreifingin um næstu helgi, 29. ágúst.
Viðskiptavinir sem fá sendingar með heimkeyrslu fá skilaboð með áætluðum afhendingartíma á laugardagsmorgnum. Þeir sem fá sendingar í póstbox og pakkaport fá tilkynningu þegar sending er tilbúin til afhendingar á móttökustað.