16% tekjuvöxtur var á fyrri helmingi ársins 2020 hjá Origo hf. Heildarhagnaður fyrirtækisins nam 371 milljón króna og EBITDA nam 360 milljónum króna.
Ef tekið er tillit til einskiptingslaunakostnaðar vegna skipulagsbreytinga og breytinga á framkvæmdastjórn sem er að fullu gjaldfærð á tímabilinu nam leiðrétt EBITDA 526 m.kr. á fyrri árshelmingi, sem er 17% hækkun frá sama tímabili árið 2019.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Origo.
Kórónuveirufaraldurinn er sagður hafa haft áhrif á ýmsa þætti í starfsemi Origo. Sem dæmi hefur spurn eftir fjarvinnu- og fjarfundalausnum verið mikil.
„Þá hefur Origo gegnt stóru hlutverki í lausnum og búnaði fyrir COVID-19-skimun og prófanir á landamærum landsins. Þar hefur reynsla og þekking Origo á umhverfi heilbrigðisþjónustu, hugbúnaðarþróunar og samtengingu stafrænna lausna stutt við aðgerðir stjórnvalda,“ segir í tilkynningunni.