Vextir áfram 1% – 7% samdrætti spáð

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum, 1%. Nefndin hefur lækkað vexti fjórum sinnum það sem af er ári og nemur lækkunin samtals tveimur prósentustigum. Vextir hafa aldrei verið jafn lágir á Íslandi.

Ákvörðun Peningastefnunefndar er í takt við spá hagdeildar Landsbankans en deildin telur ekki ólíklegt að vextir verði lækkaðir frekar á þessu ári en að nefndin kjósi að þessu sinni að bíða átekta.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 1%.

Óvissan óvenjumikil

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í ágústhefti Peningamála eru horfur á að landsframleiðslan dragist saman um 7% í ár og útlit er fyrir að atvinnuleysi verði komið í um 10% undir lok ársins.

„Þótt horfur fyrir seinni hluta ársins séu heldur lakari en spáð var í maí er talið að samdrátturinn á árinu öllu verði nokkru minni en þá var gert ráð fyrir. Þar vegur þyngst að einkaneysla var kröftugri í vor og sumar. Óvissan er hins vegar óvenjumikil og þróun efnahagsmála mun ráðast af framvindu farsóttarinnar,“ segir í tilkynningu peningastefnunefndar.

12% lækkun á gengi krónu vegur þungt í verðbólgunni

Verðbólga mældist 2,5% á öðrum fjórðungi ársins en var komin í 3% í júlí. Áhrif ríflega 12% lækkunar á gengi krónunnar frá því að farsóttin barst til landsins vega þar þungt. Verðbólguvæntingar til meðallangs og langs tíma hafa hins vegar lítið breyst og virðist kjölfesta verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði bankans halda. Samkvæmt spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að verðbólga verði í kringum 3% það sem eftir lifir árs en að mikill slaki í þjóðarbúinu og lítil alþjóðleg verðbólga geri það að verkum að hún taki að hjaðna á næsta ári og verði um 2% að meðaltali á seinni hluta spátímans.

„Traustari kjölfesta verðbólguvæntinga hefur gert peningastefnunefnd kleift að bregðast við versnandi efnahagshorfum með afgerandi hætti. Lægri vextir og aðrar aðgerðir bankans sem gripið var til á vormánuðum hafa stutt við innlenda eftirspurn. Áhrif þeirra eiga þó eftir að koma fram að fullu og munu þær áfram styðja við þjóðarbúskapinn og stuðla að því að efnahagsbatinn verði hraðari en ella.

Peningastefnunefnd mun áfram fylgjast grannt með framvindu efnahagsmála og nota þau tæki sem nefndin hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að lausara taumhald peningastefnunnar miðlist með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja,“ segir á vef Seðlabanka Íslands.

Klukkan 10:00 hefst vefútsending þar sem greint verður nánar frá yfirlýsingu peningastefnefndar, vaxtaákvörðun og efni Peningamála.

Vefútsending

Mesti samdráttur frá upphafi mælinga

COVID-19-heimsfaraldurinn og aðgerðir stjórnvalda til að hemja útbreiðslu farsóttarinnar hafa haft gríðarleg áhrif á heimsbúskapinn. Áætlað er að landsframleiðsla í helstu viðskiptalöndum Íslands hafi dregist saman um tæplega 13% á öðrum fjórðungi ársins sem er mesti samdráttur á einum fjórðungi frá upphafi mælinga. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Vísbendingar eru um að alþjóðleg efnahagsumsvif hafi sótt nokkuð í sig veðrið er leið á fjórðunginn en horfur fyrir seinni hluta ársins hafa versnað miðað við maíspá Peningamála enda hefur faraldurinn víða færst í aukana á ný.

„Þegar var tekið að hægja á innlendum efnahagsumsvifum áður en farsóttin barst til landsins og mældist liðlega 1% samdráttur milli ára á fyrsta fjórðungi ársins. Áhrifa faraldursins á efnahagsumsvif tók að gæta undir lok fjórðungsins og jukust þau enn frekar í apríl.

Vísbendingar eru hins vegar um að innlend eftirspurn hafi sótt nokkuð í sig veðrið í maí og júní þegar farsóttin tók að ganga niður og slakað var á umfangi sóttvarnaaðgerða. Þrátt fyrir það er útlit fyrir að landsframleiðslan hafi dregist saman um tæplega 11% milli ára á öðrum fjórðungi ársins. Það er minni samdráttur en spáð var í maí og vegur þar þyngst að neysluútgjöld heimila gáfu ekki eins mikið eftir og þá var óttast.

Þótt horfur fyrir seinni hluta ársins séu heldur lakari en spáð var í maí er talið að landsframleiðslan dragist saman um 7,1% á árinu öllu í stað 8% samdráttar sem gert var ráð fyrir í maí,“ segir í Peningamálum sem komu út í dag.

Vegna hagstæðari þróunar efnahagsmála á fyrri hluta ársins hefur atvinnuleysi ekki aukist eins mikið og óttast var í maí en hlutabótaleið stjórnvalda, minnkandi atvinnuþátttaka og fjölgun hlutastarfa hafa einnig átt þátt í því að atvinnuleysi jókst minna en ella.

Þrátt fyrir það er talið að atvinnuleysi haldi áfram að aukast og nái hámarki í um 10% undir lok ársins. Líkt og í maí er spáð ágætum hagvexti á næsta ári enda er þjóðarbúið að vaxa úr mikilli lægð í ár og framleiðsluþættir því vannýttir.

Þrátt fyrir það er áætlað að landsframleiðslan verði ekki jafn mikil og hún var í lok síðasta árs fyrr en seint á árinu 2023. Horfur eru hins vegar afar óvissar og munu ekki síst ráðast af framvindunni í baráttunni við farsóttina en í spá bankans er gert ráð fyrir að ekki verði verulegt bakslag í þróun farsóttarinnar þótt ekki sé útilokað að tímabundin og afmörkuð dæmi aukinna smita komi reglulega upp.

Verðbólga var 2,5% á öðrum fjórðungi þessa árs en var komin í 3% í júlí. Þar vegur líklega þungt að gengi krónunnar er nú um 14% lægra en á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir það hafa verðbólguvæntingar til meðallangs og langs tíma lítið breyst. Horfur eru á að verðbólga verði um 3% að meðaltali það sem eftir lifir árs en mikill slaki í þjóðar – búinu og lítil alþjóðleg verðbólga gera það að verkum að hún tekur að hjaðna á næsta ári og verður hún um 2% að meðaltali á seinni hluta spátímans. Þetta er meiri verðbólga á fyrri hluta spátímans en spáð var í maí enda upphafsstaðan lakari og slakinn minni nú en áður var talið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK