Kerecis valið Vaxtarsproti ársins

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra, Ingólfur Guðmundsson, forstjóri CRI, Guðmundur …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra, Ingólfur Guðmundsson, forstjóri CRI, Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, Sigurður Halldórsson, framkvæmdastjóri Pure North Recycling, og Árni Sigurjónsson, formaður SI Ljósmynd/Aðsend

Fyrirtækið Kerecis hefur verið valið Vaxtarsproti ársins. Viðurkenningin er veitt fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis, en velta Kerecis jókst um 142% á milli áranna 2018 og 2019.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, veitti Vaxtarsprotann í morgun í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal, að því er segir í tilkynningu. 

Kerecis hóf starfsemi árið 2013, en fyrirtækið framleiðir afurðir byggðar á affrumuðu þorskroði, sem hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt og eru notaðar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum, einkum hjá fólki með sykursýki. Fyrirtækið er einnig með starfsemi í Bandaríkjunum.

Rekstrartekjur félagsins jukust um 142% á milli áranna 2018 og 2019, en þær fóru úr rúmum 500 milljónum króna í yfir 1,2 milljarð króna. Þetta er í annað sinn sem Kerecis hlýtur nafnbótina Vaxtarsproti ársins, síðast árið 2017.

Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands.

Þetta er í 14. skiptið sem viðurkenningarnar eru veittar en tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja. Í dómnefnd voru Ari Kristinn Jónsson fyrir Háskólann í Reykjavík, Lýður Skúli Erlendsson fyrir Rannís og Sigríður Mogensen fyrir Samtök iðnaðarins og Samtök sprotafyrirtækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK