Fulltrúar Play viðstaddir fund um ríkisábyrgð

Spurður hvort gagnrýni á frumvarpið hafi komið frá fulltrúum Play …
Spurður hvort gagnrýni á frumvarpið hafi komið frá fulltrúum Play segir Haraldur: „Já. Það komu fram mörg sjónarmið sem eru áhugaverð.“ mbl.is/Hari

Fulltrúar flugfélagsins Play voru gestir á fundi fjárlaganefndar Alþingis í morgun þar sem ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair var rædd, að sögn Haralds Benediktssonar, varaformanns fjárlaganefndar og þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Á fundinum var frumvarpið kynnt og forsendum þess gerð skil.

„Við erum bara rétt að hefja vinnuna við þetta en þetta er kannski ekki alveg einfaldasta málið sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Haraldur um frumvarpið. 

Hann jánkar því að mörgum spurningum sé enn ósvarað. „Við eigum eftir að eiga viðræður við fleiri aðila til þess að meta málið en [Icelandair] er gríðarlega mikilvægt íslensku atvinnulífi. Það má aldrei gleyma því.“

Mörg sjónarmið hafi komið fram

Spurður hvort gagnrýni á frumvarpið hafi komið frá fulltrúum Play segir Haraldur: „Já. Það komu fram mörg sjónarmið sem eru áhugaverð og við þurfum að vega og meta. Við erum með þetta stóra og mikilvæga fyrirtæki [Icelandair] sem á þetta hlutafjárútboð eftir og það kemur ekki til ábyrgðar ríkisins nema ströng skilyrði séu uppfyllt.“

Haraldur segir að fjárlaganefnd ætli og verði að vera snör í snúningum hvað frumvarpið varðar enda ekki mikill tími til stefnu. Samkvæmt starfsáætlun þingsins á nefndin að klára sína umsögn í næstu viku.

Kórónuveiran hefur komið illa við flugfélög

Eins og áður hefur verið greint frá ákváðu íslensk stjórn­völd að veita Icelanda­ir Group rík­is­ábyrgð á lánalínu fyrir um tíu dögum síðan. Fjárhæð lánalínunnar getur orðið allt að 120 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala (um 16,5 millj­arða króna á nú­ver­andi gengi). Ábyrgðin mun nema 90% af láns­fjár­hæðinni og er háð sam­komu­lagi aðila um skil­mála henn­ar, samþykki Alþing­is og að fé­lagið nái mark­miðum sín­um um öfl­un nýs hluta­fjár.

Heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft mikil áhrif á Icelandair eins og önnur flugfélög enda mun minna um ferðalög fólks á milli landa en áður, t.a.m. vegna ferðatakmarkana sem eru í gildi víðs vegar um heim og er ætlað að hefta útbreiðslu faraldursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK