„Afar ósennilegt“ að eignir standi undir kröfum

Þotur Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Þotur Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Árni Sæberg

Ríkisendurskoðun telur afar ósennilegt að eignir sem Icelandair gæti lagt að veði fyrir láni með ríkisábyrgð gætu staðið undir kröfum ef félagið væri ófært um að greiða lánið til baka. Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi telur ljóst að óvissuþættir séu fyrir hendi í málinu.

„Helsta álitamálið er hvernig tryggingum fyrir endurheimtu ríkisábyrgðar skuli háttað. Frumvarpið er fáort um þetta en ljóst má vera að veðhæfi félagsins er orðið þannig að lítið er um hefðbundin veð sem unnt væri að setja til tryggingar láni nema þá að vera aftarlega í veðröð,“ segir í umsögn stofnunarinnar við frumvarpi fjármálaráðherra um að ríkisábyrgð verði veitt á tæplega 15 milljarða króna láni til flugfélagsins.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi. mbl.is/Eggert

Möguleiki að ríkið eignist hlut í félaginu í staðinn

Í frumvarpinu segir að komi til gjaldþrots Icelandair jafnvel þó að lánið verði veitt nemi fjárhagsleg áhætta ríkissjóðs þessum 15 milljörðum króna. „Verði sú raunin munu tilteknar eignir félagsins, þ.m.t. vörumerki, bókunarkerfi og eftir atvikum lendingarheimildir, hins vegar renna til ríkissjóðs,“ segir í frumvarpinu.

Í umsögn Ríkisendurskoðunar segir að í staðinn fyrir að félagið leggi einhverjar eignir að veði fyrir láninu, sem síðan rynnu til ríkisins ef félagið færi í gjaldþrot, sé möguleiki í stöðunni að ríkissjóður eignaðist frekar hlut í félaginu. Jafnvel komi til greina að ríkið „hreinlega tæki rekstur [félagsins] yfir með það fyrir augum að finna síðar mögulega eigendur. Þetta eru á hinn bóginn ákvarðanir sem byggjast á stjórnmálalegum forsendum sem umsögn þessi nær ekki til og ríkisendurskoðandi tekur ekki afstöðu til“.

Óvíst hvort sviðsmyndir félagsins séu raunhæfar

Að lokum segir Ríkisendurskoðun einnig að ástæða sé til að velta fyrir sér hvort þær sviðsmyndir sem stjórnendur félagsins hafa sett upp og byggt áætlanir sínar á séu raunhæfar. „Á það er útilokað að leggja mat nema með ítarlegri úttekt sérfróðra aðila og þá væri raunar alveg óvíst að eitthvað nýtt myndi koma fram. Þannig getur Ríkisendurskoðun ekki lagt mat á það atriði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK