Mesti kosturinn og ókosturinn

40% efnahagsumsvifa á Suðurnesjum eiga rætur að rekja beint eða …
40% efnahagsumsvifa á Suðurnesjum eiga rætur að rekja beint eða óbeint til Keflavíkurflugvallar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir að langtímasýn á aðgerðir á landamærum vegna kórónuveiru vanti ef treysta eigi á ferðaþjónustuna áfram. Stór uppsögn hjá Isavia í gær sé mikið áfall, fyrst og fremst fyrir fólkið sem missti atvinnu sína. Bæjarstjórinn segir efnahagsleg umsvif sem tengjast Keflavíkurflugvelli bæði mikinn kost og ókost.

Isavia sagði 133 starfsmönnum upp í gær og er það stærsta uppsögn fyrirtækisins frá upphafi faraldursins. „Þetta er ekki gott og fyrst og fremst áfall fyrir fólk sem er að missa vinnuna og fjölskyldu þeirra,“ segir Kjart­an Már Kjart­ans­son, bæj­ar­stjóri Reykja­nes­bæj­ar. 

Meiri samdráttur á vellinum viðbúinn

Heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft umtalsverð áhrif á ferðalög fólks á milli landa enda aðgengi að ýmsum löndum takmarkað, til dæmis að Íslandi.

„Ég held að menn hafi búist við og megi enn búast við frekari samdrætti á flugvellinum. 40% efnahagsumsvifa á Suðurnesjum eiga rætur að rekja beint eða óbeint til Keflavíkurflugvallar. Jafn gott og það kann að vera þegar allt gengur vel þá er það vont þegar gengur illa. Þetta er mesti kosturinn en mesti ókosturinn líka.“

Spurður hvort kenna megi nýjum reglur um tvöfalda skimun allra sem hingað til lands koma og 4-6 daga sóttkví þar á milli um uppsagnir Isavia segir Kjartan:

„Ég velti fyrir mér hvernig sóttvarnayfirvöld á Íslandi eða ríkisstjórnin sér þetta fyrir sér. Ég er ekki alveg búinn að átta mig á því. Ef við náum að gera Ísland veirufrítt á næstu 2-4 vikum, sem væri óskandi, ætla menn þá að slaka á? Ef það verður slakað á þá kemur hugsanlega aftur smit inn í landið og svo koll af kolli þannig að ég átta mig ekki alveg á því hvert menn ætla með þetta. Hvort við ætlum að reyna að halda landinu veirufríu og treysta því bara að það gangi um aldur og ævi eða hvort við ætlum að reyna að læra að lifa með þessu eins og öðrum alvarlegum sjúkdómum og flensum.“

„Ég held að menn hafi búist við og megi enn …
„Ég held að menn hafi búist við og megi enn búast við frekari samdrætti á flugvellinum,“ segir Kjartan. mbl.is

Fleiri fyrirtæki hagræða

Kjartan segir að ef horft sé á málið út frá fluggeiranum sé ekki vænlegt að herða og slaka á aðgerðum í sífellu. 

„Stór flugfélög, eins og British Airways og Delta, gera ekki sínar flugáætlanir frá viku til viku eða velja sér ekki áfangastað núna þennan mánuðinn vegna þess að hann sé opinn þá en ekki í næsta mánuði. Ég held að við verðum að vera með einhverja langtímasýn og langtímastefnu í þessu ef við ætlum að halda áfram að treysta á ferðaþjónustuna.“

Fyrirtæki í Reykjanesbæ sem tengjast flugvellinum leynt og ljóst íhuga nú hvort ráðast þurfi í einhverjar breytingar eða niðurskurð, að sögn Kjartans sem vonar að þjóðinni takist að vinna sig út úr faraldrinum „með skynsamlegum hætti“ á næstu misserum.

„Isavia er bara eitt af mörgum fyrirtækjum og við heyrum af áformum tengdra fyrirtækja. Við vitum náttúrulega að bílaleigur og flugafgreiðslufyrirtæki hafa verið að hagræða í sínum rekstri. Svo finnum við það á verslun og þjónustu hérna niðri í bæ að þegar það eru engir ferðamenn á svæðinu er samdráttur þar líka.“

Missa fljótt kraftinn og orkuna

Atvinnuleysi hefur undanfarið verið hvað mest á Suðurnesjum. Kjartan segir mikilvægast af öllu að halda fólki sem misst hefur atvinnu sína virku með einhverjum hætti. 

„Einn leikurinn í þeirri stöðu er væntanlega sá að opinberir aðilar og vonandi einhver fyrirtæki geti ráðið til sín fólk af atvinnuleysisskrá og fengið atvinnuleysisbæturnar á móti launagreiðslum til þess að geta þá unnið að einhverjum verkefnum sem hefur ekki gefist tími eða ráðrúm til að vinna og skapa um leið verkefni og virkni fyrir fólk. Það er ekkert verra heldur en að vera aðgerðalaus heima. Menn missa mjög fljótt kraftinn og orkuna og löngunina til þess að koma sér af stað aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK