Erlend nýsköpunarfyrirtæki sem búa við betri stuðningsumhverfi en íslensk gætu hæglega tekið fram úr íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum, að sögn Önnu Margrétar Guðjónsdóttur framkvæmdastjóra ráðgjafarfyrirtækisins Evris. Hún telur að sókn í íslenskri nýsköpun geti hjálpað okkur út úr efnahagslægðinni sem kórónuveiran hefur haft í för með sér.
Evris sérhæfir sig í að tengja saman íslensk nýsköpunarfyrirtæki og erlend og afla þeim styrkja í Evrópu og víðar. Anna var gestur útvarpsþáttarins Sprengisands í morgun.
Anna sagði þar að nú væri kjörinn tíma fyrir íslensk fyrirtæki, bæði ný og gömul, til að velta því fyrir sér hvort skynsamlegt væri að opna útibú erlendis og ráðast í vöruþróun.
Á þremur árum hefur Evris aflað íslenskum fyrirtækjum 23 milljóna evra, eða sem nemur um fjórum milljörðum íslenskra króna, og sagði Anna að eftir miklu væri að slægjast. „Þetta eru ótrúlega miklir fjármunir.“ Til samanburðar úthlutaði Tækniþróunarsjóður rúmum milljarði á síðasta ári.
Anna benti á að til dæmis væri Evrópusambandið nú að leita að grænum lausnum og byði upp á sjóð sem telur einn milljarð evra eða um 160 milljarða íslenskra króna. Anna sagði að íslensk fyrirtæki og stofnanir ættu fullt erindi til að sækja þar um. Bretar hefðu sömuleiðis sett aukið fjármagn í sína sjóði eftir að þeir gengu úr ESB sem íslensk fyrirtæki, bæði ný og gömul, gætu sannarlega sótt í. Eina skilyrðið væri að fyrirtækin væru tilbúin í að opna útibú erlendis og með vöru í þróun.
Þá sagði Anna að stuðningsumhverfi íslenskra nýsköpunarfyrirtækja mætti bæta. Það sem gæti viðhaldið íslenskum árangri erlendis væri að veita ríkulegri sóknarstyki. Þeir felast í því að fyrirtæki fái styrk hérlendis til þess að kaupa þjónustu til að sækja sér stóra styrki. Hérlendis er hægt að sækja um slíka styrki árlega en annars staðar á Norðurlöndunum er hægt að sækja um hvenær sem er. „Þessi einfalda aðgerð stjórnvalda held ég að gæti skipt verulega miklu máli fyrir fyrirtæki,“ sagði Anna.
Hún hvatti til þess að hið opinbera og samtök og fyrirtæki sem vildu stuðla að nýsköpun sameinuðust í því að styðja við nýsköpun. Anna sagði að það væri sóun að þessir aðilar stæðu ekki meira saman.
„Hefðbundnar lausnir duga ekki fyrir litla Ísland, við verðum að hugsa þetta upp á nýtt,“ sagði Anna.