Gagnaveita Reykjavíkur, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, skilaði jákvæðri rekstrarniðurstöðu 2019 og nam hagnaður eftir skatt 359 milljónum króna sem er 87% aukning frá 2018 þegar hagnaðurinn nam 192 milljónum. Þetta kemur fram fréttatilkynningu frá félaginu.
Fram kemur í tilkynningunni að „meginástæða jákvæðrar afkomu er fjölgun viðskiptavina á heimilis- og fyrirtækjamarkaði undanfarin ár í kjölfar ljósleiðaravæðingar“. En nú stendur 75% allra heimila á landinu ljósleiðaratenging til boða.
Þar segir að rekstrartekjur hafi verið 3,1 milljarður árið 2019 sem er 18% aukning frá fyrra ári en á sama tíma hækkuðu rekstrargjöld aðeins um 13%, úr 900 milljónum í rétt rúman milljarð. Þá bættist framlegðin um 26% milli ára og rekstrarhagnaðurinn (EBIT) um 26% og nam hann 1,2 milljörðum árið 2019.
„Þessi árangur er í samræmi við áætlanir okkar en Ísland er í fyrsta sæti í nýtingu ljósleiðara samkvæmt skýrslu Idate og hefur verið á meðal fremstu þjóða í hraða fjarskiptasambanda um árabil,“ er haft eftir Erlingi Frey Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Gagnaveitunnar.