Ríkisábyrgð veiti „löskuðum rekstri óverðskuldað framhaldslíf“

mbl.is/Hari

Flugfélagið Play efast um réttmæti frumvarps um ríkisábyrgð Icelandair og telur verulega áhættu felast í frumvarpinu fyrir ríkissjóð.

Þetta kemur fram í umsögn Play til fjárlaganefndar um ríkisábyrgð Icelandair.

„Ljóst er að [frumvarpið] er til þess fallið að raska eðlilegum samkeppnismarkaði í flugi til og frá Íslandi næstu fimm árin og gera þannig nýjum aðilum erfiðara fyrir að fóta sig á þessum markaði,“ segir í umsögninni.

Fram kemur að frumvarpið sé líklegt til að vinna gegn helsta markmiði sínu um að stuðla að tryggum flugsamgöngum við landið, „enda verða þær best tryggar með því að allir flugrekstraraðilar keppi um markaðshlutdeild á forsendum eðlilegs samkeppnismarkaðar“.

Stuðningur við einn aðila fram yfir aðra er líklegur til að stuðla að fákeppnismarkaði, og veita „löskuðum rekstri óverðskuldað framhaldslíf“.

Ábyrgðargjaldið of lágt

Í umsögninni, sem er sjö blaðsíður að lengd og undirrituð af Arnari Má Magnússyni, forstjóra Play, segir að aðgerðirnar séu ekki í samræmi við sambærilegar aðgerðir í öðrum löndum og brjóti mögulega í bága við ríkisaðstoðarreglur sem gilda á EES-svæðinu.

Fram kemur að ábyrgðargjaldið sem til stendur að leggja á vegna veitingar ábyrgðarinnar sé of lágt í samanburði við það sem önnur ríki hafa lagt á við sambærilegar aðstæður, og sé jafnvel lægra en þau lágmarksviðið sem ESA og framkvæmdastjórn ESB geri ráð fyrir.

Aðgerðirnar veki ýmsar spurningar í tengslum við þær ríkisaðstoðarreglur sem gilda á EES-svæðinu, og að það megi teljast sennilegt að keppinautar félagsins muni láta reyna á lögmæti þeirra aðgerða sem tengjast endurskipulagningu Icelandair Group.

„Sú áhætta sem felst í frumvarpinu fyrir ríkissjóð er veruleg,“ segir í umsögninni. „Lagt er til að félagið geti, á þeim tímapunkti þegar félagið verður komið í ósjálfbæra stöðu fjárhagslega, dregið á lánalínur sem eru ríkistryggðar og þannig stóraukið við skuldir sínar og því gert skuldastöðu sína enn ósjálfbærari en áður. Miklar líkur eru á að þessar skuldir endi á ríkissjóði komi til ádráttar á lánalínurnar, enda eru ekki lögð fram nein raunveruleg veð til tryggingar af hálfu félagsins.“

Þá er hvatt til þess að ábyrgðargjaldið verði aðlagað því sem gert sé ráð fyrir í viðmiðum ESA og framkvæmdastjórnar ESB og því sem önnur Evrópulönd hafi farið fram á við svipaðar aðstæður nýlega.

„Það þýðir að hækka ætti gjaldið verulega og skapa sterkan hvata til þess að félagið losi sig undan ábyrgðinni við fyrstu hentugleika. Einnig er hvatt til þess að sett verði frekari skilyrði fyrir veitingu ábyrgðarinnar, t.d. að tilteknum lendingarheimildum verði afsalað til keppinauta, svo lágmarka megi þau neikvæðu áhrif sem af henni munu hljótast,“ segir í umsögninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK