Icelandair Group hefur náð samkomulagi við Íslandsbanka og Landsbankann um sölutryggingu væntanlegs hlutafjárútboðs félagsins. Samkvæmt samkomulaginu munu bankarnir kaupa, hvor fyrir sig, nýtt hlutafé að andvirði samtals allt að 6 milljarða króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Icelandair Group sem var að berast.
Í tilkynningunni segir jafnframt að endanleg fjárhæð sölutryggingarinnar muni skiptast jafnt milli bankanna. „Samningurinn er háður því skilyrði að áskriftir fjárfesta nái að lágmarki 14 milljörðum króna í útboðinu. Frekari upplýsingar munu verða gerðar aðgengilegar í skráningarlýsingu Icelandair Group sem birt verður í aðdraganda útboðsins,“ segir að lokum í tilkynningunni.
Félagið hefur áður gefið út að það stefni að því að selja hluti fyrir 20 milljarða króna á nafnverði á genginu 1 króna á hlut. Þá hafi stjórn félagsins heimild til að auka hlutafé enn frekar um allt að 3 milljarða komi til umframeftirspurnar, þannig að stærð útboðsins yrði að hámarki 23 milljarðar króna.