Augljóst er að fiskveiðiárið sem leið undir lok í byrjun vikunnar hafi verið óvenjulegt fyrir margar sakir. Það þótti því viðeigandi að fá Ástu Björk Sigurðardóttur, hagfræðing Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, til að rýna í þróun mála undanfarna mánuði.
Fiskveiðiárið 2019/2020 sem nú er að líða hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig, öðru nær. Ber hér hæst að nefna loðnubrest og áhrifin af COVID-19-faraldrinum. Þó má nú segja að hin fordæmalausa staða sem nú er uppi í heimsbúskapnum hafi sett allt aðra merkingu á hlutina. Þannig að þrátt fyrir að staðan í sjávarútvegi sé vissulega erfið og óvissan óvenjumikil, þá er hún samt allt önnur og betri en í mörgum öðrum atvinnugreinum,“ segir Ásta Björk.
Hún segir loðnubrest annað árið í röð hafa verið verulega þungt högg fyrir mörg sjávarútvegsfyrirtæki með tilheyrandi tekjutapi og afleiddum áhrifum. „Að loðnubresti undanskildum, var ágætisgangur í sjávarútvegi þar til áhrifa COVID-19 tók að gæta. Slæmt tíðarfar yfir háveturinn torveldaði þó veiðar, en á heildina litið gekk framleiðslan ágætlega og ástandið á mörkuðum var almennt gott.“
„Staðan á mörkuðum umturnaðist á örskömmum tíma um miðjan mars þegar faraldurinn náði sér á strik, enda verður höggið þungt á eftirspurn þegar stór hluti jarðarbúa sætir útgöngubanni og vinnustöðum og landamærum er víða lokað. Þar ofan á raskaði þetta ástand verulega flutningsleiðum afurða til söluaðila, sér í lagi með flugi en einnig sjó- og landleiðina. Það leiddi jafnframt til aukins kostnaðar fyrirtækjanna vegna flutninga á sama tíma og þrýstingur tók að myndast á verðlækkun afurða,“ segir Ásta Björk.
Fyrstu áhrif kórónuveirufaraldursins birtust í mars og var það sérstaklega auðsjáanlegt hjá fyrirtækjum sem flytja út ferskar afurðir með flugi, að sögn Ástu Bjarkar. „Ferðaþjónustan um allan heim er mikilvægur markaður fyrir matvæli og er ljóst að höggið er þungt þegar hún leggst nánast af í okkar helstu viðskiptalöndum. Þetta kom mest niður á eftirspurn eftir ferskum og sjófrystum afurðum. Ástandið virðist þó hafa batnað í byrjun sumars þegar væntingar voru um að veiran væri á undanhaldi og í kjölfarið fóru mörg ríki að slaka á sóttvarnaaðgerðum og fyrirtæki juku starfsemi sína á nýjan leik. Nú virðist sú bjartsýni hins vegar vera á miklu undanhaldi með aukinni tíðni sýkingar frá því um mitt sumar.“
Áhrif faraldursins á sjávarútveginn eru vel merkjanleg í útflutningstölum Hagstofu Íslands, útskýrir hún. „Faraldurinn skellur á af fullum þunga um miðjan mars með tilheyrandi áhrifum á útflutning næstu mánuði. Samdrátt í útflutningsverðmætum á þessum tíma má fyrst og fremst rekja til samdráttar í útfluttu magni, en einnig verður þó nokkuð snarpur viðsnúningur á afurðaverði í erlendri mynt.“
„Á móti vegur talsverð lækkun á gengi krónunnar sem vissulega styður við afkomu greinarinnar í krónum talið enda eru um 98% sjávarafurða flutt út. Viðsnúningur á sér svo stað í júní og í þeim mánuði eykst útflutningur talsvert á milli ára, þá bæði í magni og verðmætum.“
Ásta Björk segir vísbendingar vera um að samdráttur hafi orðið á ný í júlí. Tekur hún sérstaklega fram að ekki sé hægt að fullyrða að þann samdrátt megi rekja til kórónuveirufaraldursins þrátt fyrir að hann hafi birst víða aftur um þetta leyti. „Hér ber að halda til haga að útflutningstölur fyrir tiltekinn mánuð endurspegla ekki að fullu það sem flutt var út í mánuðinum. Hluti af afurðunum kann að hafa verið fluttur út fyrir einhverju síðan en tafir geta verið á gögnum. Slíkur tímamismunur er algengari vegna gagna um uppsjávarafurðir en aðrar sjávarafurðir, en þetta leiðir til þess að erfiðara er að greina ástandið á hverjum tíma.“
Hún segir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki nú standa frammi fyrir mikilli óvissu vegna kórónuveirufaraldursins og aðstæður kalli á breytingar í rekstri þeirra. Þá sé rekstur sjávarútvegsfyrirtækja mjög fjölbreyttur og eru því áhrifin mismunandi á milli fyrirtækja á framleiðslu, sölu og birgðastöðu.
„Í heildina virðist gangurinn í sjávarútvegi þó almennt hafa verið betri en á horfðist í fyrstu þegar faraldurinn skall á. Þar skiptir sveigjanleiki íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og styrkur þess skipulags sem greinin býr við sköpum. Sjávarafurðir eru afar fjölbreyttar, bæði hvað varðar tegundir og vinnsluafurðir. Ólíkir afurðaflokkar sömu fisktegunda endurspegla sveigjanleika, það er að svigrúm sé til tilfærslu á milli afurðaflokka eftir aðstæðum, eins og þegar skellur kemur á eftirspurn. Áhersla sjávarútvegsfyrirtækja á að sækja á fleiri og ólíka markaði er ekki síður mikilvægur sveigjanleiki, enda er hægara um vik að bregðast við og leita annað þegar viðskiptasambönd eru víðar.“
„Svo er það aflamarkskerfið, sem tryggir fyrirtækjum rétt til veiða á tilteknu aflamagni innan fiskveiðiársins, ásamt samþættingu veiða og vinnslu og órofinni virðiskeðju allt til erlendra kaupenda sjávarafurða,“ útskýrir Ásta Björk og bætir við: „Þótt ómögulegt sé að spá fyrir um framhaldið, sem ekki síst ræðst af því hvernig til tekst að ráða niðurlögum faraldursins víða um lönd, munu þessir eiginleikar vafalaust flýta fyrir aðlögun sjávarútvegs að nýjum aðstæðum, en það hefur sjaldan verið mikilvægara fyrir þjóðarbúið en nú.“
Viðtalið við Ástu Björk var fyrst birt í 200 mílum sem dreift var með Morgunblaðinu 29. ágúst.