Setja á inn sérstakt ákvæði sem kveður á um að ríkisábyrgð lána til Icelandair verði eingöngu veitt ef fjármununum er ætlað að standa straum af rekstrarkostnaði sem tengist flugrekstri Icelandair Group. Þetta kemur fram í áliti meirihluta fjárlaganefndar Alþingis.
Upphæðin sem um ræðir nemur 120 milljónum Bandaríkjadala. Í álitinu segir að tryggja verði að fjárhæðin verði nýtt til flugrekstrar en ekki í öðrum tilgangi. Þá er þess sömuleiðis krafist að hlutafjárútboð flugfélagsins heppnist.
Í nefndarálitinu segir: „Í skilmálum ábyrgðarinnar er sett inn sérstakt ákvæði þar sem fram kemur að lántaka er eingöngu heimilt að nýta lán með ríkisábyrgð til að standa skil á almennum rekstrarkostnaði sem tengist flugrekstri til og frá landinu en óheimilt er að nýta lánið til fjármögnunar á rekstri, eða ráðstafa því með öðrum hætti, svo sem til dótturfélaga í samstæðu lántaka sem ekki eru í flugrekstri á Íslandi til og frá landinu.“