Nettó, í samstarfi við Krambúðina, hefur ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum í Búðardal, Reykjahlíð, Hólmavík og á Flúðum upp á þann möguleika að fá senda vörur úr netverslun Nettó. Er þetta gert í tilraunaskyni til að mæta óskum viðskiptavina verslananna.
„Við höfum verið í góðum samskiptum við íbúa sveitarfélaganna og erum sífellt að leita leiða til að bæta þjónustu okkar. Með netverslun Nettó gefst okkur tækifæri á að bjóða íbúum á þessum svæðum upp á enn hagstæðari verð í heimabyggð,“ er haft eftir Gunnari Agli Sigurðssyni, framkvæmdastjóra verslunarsviðs Samkaupa, í tilkynningu.
Íbúum sveitarfélaganna gefst kostur á að panta vörur í gegnum netverslun Nettó og fá þær afhentar í Krambúðum á svæðinu. Sendingar eru viðskiptavinum að kostnaðarlausu versli þeir fyrir 15 þúsund krónur hið minnsta.
Íbúar í Dalabyggð skiluðu fyrr í sumar undirskriftalista til forstjóra Samkaupa þar sem þess er óskað að Krambúðinni í sveitarfélaginu verði breytt að nýju í Kjörbúðina.