Hagnaður Ölgerðarinnar eftir skatta var 578 milljónir króna á síðasta fjárhagsári fyrirtækisins og jókst velta þess um 4,3% milli ára. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að EBITDA hafi staðið í stað milli ára.
Um er að ræða fjárhagsárið 01.03. 2019 – 28.02. 2020. Hagnaður sem hlutfall af veltu á fjárhagsárinu var 2,2%, en var 1,6% árið áður. Eins og áður segir var hagnaður eftir skatta 578 milljónir króna en hann var 395 milljónir árið áður. Nemur aukningin 41%.
„Við erum afar stolt af þeim árangri sem við náðum á nýliðnu rekstrarári og getum fyrst og fremst þakkað það afburðastarfsfólki og þeim gæðavörum fyrirtækisins sem íslenskir neytendur þekkja og kunna að meta,“ er haft eftir Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra og eins eigenda, í tilkynningu frá Ölgerðinni.
„Við minnkuðum að auki kolefnisspor fyrirtækisins enn á ný og höfum nú minnkað það um 54% frá árinu 2016 og höfum þannig náð skuldbindingu Parísarsamkomulagsins,“ segir Andri.
„Vistferilsgreining á umbúðum Ölgerðarinnar leiðir jafnframt í ljós mikinn umhverfislegan ávinning af því að framleiða drykkjarvörur hér heima á Íslandi í stað þess að flytja þær tilbúnar inn og það er mikið ánægjuefni,“ segir forstjórinn.
Í tilkynningunni kemur fram að áhrif Covid-19-faraldursins á rekstur Ölgerðarinnar hafi verið talsverð á tímabilinu mars - maí, eins og á flest önnur íslensk fyrirtæki. „Fyrirtækið nýtti sér hlutabótaleið stjórnvalda til að viðhalda ráðningarsambandi og koma í veg fyrir stórfelldar uppsagnir og tókst það vel. Tilslakanir hafa síðan leitt til söluaukningar og betri rekstrar og í því ljósi hefur Ölgerðin nú óskað eftir því við Vinnumálastofnun að endurgreiða hlutabæturnar,“ segir í tilkynningu Ölgerðarinnar.