Hluthafafundur Icelandair fer fram á Nordica á morgun og þar verður óskað eftir nýrri heimild til að ráðast í hlutafjárútboð. Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, kveðst bjartsýnn á framhaldið.
„Ég er mjög bjartsýnn á tækifærin fyrir okkar fyrirtæki, bæði fyrir ferðamannamarkaðinn hér og tengimódel okkar. Það eru öll teikn að sjá í okkar umhverfi að það verði tækifæri fyrir okkar félag sem hægt er að grípa með arðbærum hætti. Forsendan er þó auðvitað að næsta vor verði heimurinn búinn að ná einhverjum tökum á Covid og ferðatakmörkunum verði aflétt,“ segir Bogi í samtali við mbl.is.
Bogi segir að mikilvægur áfangi hafi náðst fyrir helgi þegar ríkisábyrgð á lánalínum Icelandair var samþykkt. „Það var ein af lykilforsendunum til að geta haldið áfram. Nú er síðasti áfanginn þetta hlutafjárútboð,“ segir forstjórinn.
Á hluthafafundi á morgun verður farið yfir stöðuna með hluthöfum félagsins og óskað eftir nýrri heimild til að ráðast í hlutafjárútboð. Fyrri heimild var útrunnin auk þess sem henni hefur verið breytt. Gangi allt eftir verður einstaklingum gert kleift að kaupa hlutabréf í Icelandair fyrir 100 þúsund krónur. Hefur lágmarksfjárhæðin verið lækkuð talsvert en hún var áður 250 þúsund krónur. Bogi segir aðspurður að þessi breyting hafi verið gerð eftir ábendingu á starfsmannafundi nýverið. Með þessum hætti geti fleiri starfsmenn en ella mögulega séð sér fært að taka þátt í útboðinu. Ekki er þó skilyrði að vera starfsmaður Icelandair til að taka þátt í útboðinu og segir Bogi að áhugasamir getið falið bönkum að hafa milligöngu um kaup, kjósi þeir svo. Stefnt er að því að útboðið hefjist á mánudagsmorgun og standi í tvo daga.
Getur fólk nýtt sér inneignir hjá Icelandair til að eignast hlutabréf í félaginu?
„Nei, það er ekki hægt. Það var of mikið flækjustig til að hægt væri að ná því.“
Þær raddir hafa heyrst að þegar þröskuldur útboðsins sé orðinn svona lágur sé verið að ginna venjulegt fólk til að fjárfesta í áhætturekstri. Bogi segir það af og frá. „Áhætta er alltaf til staðar í hlutabréfakaupum, sama hvort upphæðin er 100 þúsund eða 250 þúsund. Það er mikilvægt að fjárfestar geri sér grein fyrir því.“
Icelandair hefur aflýst mörgum ferðum síðustu daga. Bogi segir að ferðatakmarkanir hafi gríðarlega mikil áhrif á eftirspurn og félagið verði að bregðast við stöðunni.
„Við getum ekki leyft okkur að fljúga með hálftómar vélar í stórum stíl. Við höfum aflýst með eins miklum fyrirvara og við getum en þurfum samt að taka snarar ákvarðanir hér og horfa tiltölulega stutt fram í tímann. Aðstæður breytast hratt.“