Franska lúxusvörufyrirtækið LVMH hefur hætt við yfirtöku á bandaríska skartgripafyrirtækinu Tiffany en tilboðið hljóðaði upp á 16,2 milljarða bandaríkjadala.
Í tilkynningu frá LVHM kemur fram að ákveðið hafi verið að hætta við yfirtökuna vegna ýmissa atriða sem hafi dregið úr áhuga þeirra á Tiffany & Co. Einkum og sér í lagi hótana bandarískra yfirvalda um að leggja tolla á franskar vörur.
Stjórn Tiffany er afar ósátt við ákvörðun franska fyrirtækisins og hótar því að knýja fram samruna með aðstoð dómstóla.
LVMH segir að það hafi fengið bréf frá franska utanríkisráðherranum, Jean-Yves Le Drian, þar sem mælt var gegn samrunanum vegna hótana frá forseta Bandaríkjanna um að setja tolla á franskar vörur. Eins hafi Tiffany farið fram á að lokadagsetningu samrunans yrði frestað. Að þessu gefnu er ómögulegt fyrir LVMH að ljúka samrunanum.
Franski auðmaðurinn Bernard Jean Étienne Arnault er stjórnarformaður LVMH og aðaleigandi en meðal vörumerkja fyrirtækisins eru merki eins og Louis Vuitton, Dior og Moët & Chandon. Tiffany er eitt þekktasta skartgripafyrirtæki heims og er heimsþekkt fyrir giftingarhringi og demanta. Fyrirtækið var stofnað árið 1837 og eru höfuðstöðvar þess við Fifth Avenue í New York.