Tæknirisinn Apple hefur þróað grímur sem fyrirtækið er byrjað að dreifa til starfsmanna sinna á skrifstofum og í verslunum, til að takmarka útbreiðslu faraldurs kórónuveirunnar.
Gríman er sú fyrsta sem Apple býr til fyrir starfsfólk sitt, en til þessa hefur fyrirtækið útvegað grímur sem hannaðar voru og framleiddar af öðrum.
Þá hefur Apple áður framleitt andlitsvörn fyrir starfsfólk í heilbrigðisgeiranum og dreift milljónum gríma í því skyni, að því er fram kemur í umfjöllun Bloomberg.
Nýja gríman, sem ber heitið Face Mask, hefur verið þróuð af verkfræði- og iðnhönnunardeildum fyrirtækisins, sem eru sömu deildir og vinna að þróun tækja á borð við iPhone og iPad.
Gríman er þriggja laga og getur verið þvegin og notuð aftur að minnsta kosti fimm sinnum, segir í tilkynningu fyrirtækisins til starfsmanna.