Erna Bjarnadóttir hagfræðingur hefur verið ráðin verkefnastjóri á rekstrarsviði hjá Mjólkursamsölunni. Hún starfaði áður sem hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands í 20 ár auk þess sem hún sat í stjórn Arion banka (áður Nýja Kaupþing) 2008 til 2010.
„Ég er mjög spennt fyrir nýjum áskorunum. Mjólkursamsalan er eitt stærsta afurðasölufyrirtæki landsins í eigu bænda og hér eru gríðarlega fjölbreytt og krefjandi verkefni. Ég hlakka mjög til að kynnast starfseminni og leggja mitt að mörkum,“ er haft eftir Ernu í tilkynningu frá Mjólkursamsölunni.
„Það er fengur að því að fá Ernu inn í fyrirtækið. Hún hefur dýrmæta reynslu sem mun nýtast okkur vel,“ er haft eftir Pálma Vilhjálmssyni aðstoðarforstjóra Mjólkursamsölunnar.
Erna er búfræðikandídat frá Hvanneyri, með meistaragráðu í hagfræði frá University College of Wales og diplóma í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.