Poul Christoffer Thomassen hefur verið ráðinn tryggingastærðfræðingur hjá Vátryggingafélagi Íslands (VÍS), þar sem hann mun meðal annars koma að rekstri vátrygginga, afkomu þeirra og bera ábyrgð útreikningi vátryggingaskuldar, að því er fram kemur í tilkynningu frá VÍS.
Þá mun hann starfa náið með áhættustýringu til þess ganga úr skugga um að áhættustýrikerfi félagsins sé skilvirkt, sér í lagi varðandi útreikning áhættu vegna gjaldþolskrafna og vegna eigin áhættu- og gjaldþolsmats.
Poul, sem er frá Færeyjum, hefur fjölbreytta reynslu sem tryggingastærðfræðingur. Meðal annars var hann tryggingastærðfræðingur hjá danska tryggingafélaginu Quodos, leiddi tryggingafræðilegt ráðgjafarteymi hjá Deloitte í Danmörku og var framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá TF Holding. Poul er með Cand. Act-gráðu í tryggingastærðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla (Københavns Universitet), ásamt framhaldsmenntun í viðskiptafræði (HD1) frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn (Copenhagen Business School). Hann er jafnframt með CERA-vottun sem er alþjóðleg vottun í áhættustýringu fyrir tryggingastærðfræðinga.