Sala er hafin á nýjum lúxusíbúðum við Austurhöfn, Íslenskar fasteignir hafa yfirumsjón með framkvæmdum í húsinu. Íbúðirnar eru á verðbilinu 59 milljónir til 345 milljónir króna, en óskað er eftir tilboðum í íbúðir á efstu hæð byggingarinnar. Eru þær líklegast nokkuð dýrari en uppgefið er á aðrar íbúðir þar sem þær eru bæði á eftirsóttasta stað, sem og eru það stærstu íbúðirnar sem eru til sölu.
Íbúðirnar sem í boði eru eru misstórar, sú minnsta er rétt tæplega 50 fermetrar að stærð en sú stærsta rúmlega 350 fermetrar.
Á vef Austurhafnar kemur fram að þjónustufulltrúi íbúaþjónustu verði á svæðinu 8 tíma á dag til að annast samskipti við þá sem veita þjónustu í húsinu, taka á móti sendingum, hafa eftirlit með aðgangi að húsinu og er íbúum og eigendum almennt innan handar. Gegn aukagjaldi stendur íbúum og eigendum íbúða til boða margvísleg önnur þjónusta, til dæmis val á húsgögnum, matargerð, barnapössun, fatahreinsun og gæludýragæslu.
Þá stendur íbúum Austurhafnar til boða aðstoð við val og kaup á listaverkum fyrir heimilið frá i8 galleríi.