Forstjóri Rio Tinto, Jean-Sébastien Jacques, ætlar að láta af störfum í kjölfar gagnrýni á störf félagsins. Ástæðan er eyðilegging fyrirtækisins á fornum hellum á svæðum frumbyggja Ástralíu fyrr á árinu.
Í maí eyðilagði fyrirtækið, sem er stærsta námafyrirtæki heims, tvo hella frá fornsögulegum tíma í Pilbara í Vestur-Ástralíu. Þrátt fyrir mótmæli frumbyggja stöðvaði fyrirtækið ekki framkvæmdirnar og sprengdi einnig upp Juukan Gorge-hellana.
Ákvarðanir fyrirtækisins vöktu reiði meðal hluthafa sem og almennings og var stjórn Rio Tinto undir miklum þrýstingi að grípa til aðgerða. Í dag sendi Rio Tinto síðan frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að hluthafar hafi lýst yfir áhyggjum yfir ábyrgð stjórnenda fyrirtækisins á ákvörðun þess í þessu máli og þrír stjórnendur myndu láta af störfum.
Jacques verður forstjóri fyrirtækisins þangað til í mars eða þangað til arftaki hans í starfi finnst. Yfirmaður járngrýtissviðs mun einnig láta af störfum sem og yfirmaður samskiptasviðs og hætta þeir í lok árs.