Sífellt fleiri raddir tala um styrki

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á Iðnþingi …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á Iðnþingi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði á Iðnþingi í dag að hún heyrði sífellt fleiri raddir í atvinnulífinu tala um styrki til reksturs. Sagði hún að horfa þyrfti til þess að oft væru atvinnugreinar styrktar þegar verið væri að koma þeim af stað eða staðan væri erfið, en þá þyrfti líka að vera hægt að stíga til baka þegar reksturinn væri kominn vel af stað og hætta styrkjum og beina sjónum sínum að öðrum greinum sem væru í vexti.

Tók hún fram að þetta ætti þó ekki við um bein áhrif vegna kórónuveirufaraldursins. Sagði hún þá vinnu vera slökkvi- og björgunarstarf til að koma í veg fyrir að það verði alveg sviðin jörð. Hins vegar hefðu að undanförnu verið settir fjármunir í endurgreiðslu fyrir kvikmyndagerð, í bókaútgáfu og tónlist, auk þess sem fjölmiðlar hefðu verið styrktir.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Sagði hún við þá sem hlustuðu að hún væri bandamaður þeirra sem vildu gera kerfið almennt skýrara og skilvirkara og lækka skatta. Sagði hún enga uppgjöf vera á þeim vettvangi hjá sér.

Þórdís fór líkt og aðrir ræðumenn á þinginu inn á mikilvægi nýsköpunar við verðmætasköpun hér á landi. Sagði hún að hugarfarið hefði mikið breyst hér á landi undanfarna mánuði og að nú væri fólk farið að ganga í takt saman „að við ætlum að vera nýsköpunarlandið Ísland,“ og bætti við að þetta væri ákvörðun sem hefði verið tekin og væri langöflugasta leiðin til að standa undir þeim lífsgæðum sem Íslendingar vildu viðhalda.

Notaðist Þórdís við þekkta vísun og sagði ónauðsynlegt að finna upp hjólið. Hins vegar ætti að nýta lausnir sem hefðu sannað sig til finna nýjar leiðir til að nýta hjólið sem best. Slíkt væri lykillinn að verðmætasköpun.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK